01.03.2010 07:29
Ekki góðar fréttir af Þór
Varðskipið Þór er líklegast skemmt
Óttast er að töluverðar skemmdir hafi orðið á nýja verðskipinu Þór, sem er í smíðum í skipasmíðastöð í Chile.
Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar kemur fram að flóðbylgja upp á tvo og hálfan metra hafi gengið inn í þurrkvínna þar sem skipið er, sópað undan því búkkunum, sem það stóð á, þannig að nú hallist það allt að 30 gráður í kvínni. Auk þess hafi sjór líklega komist ofan í vélarrúm, sem sé mjög alvarlegt mál. Stórtjón hafi einnig orðið á stöðinni sjálfri og margir mánuðir geti liðið þar til hún verður starfhæf á ný. Smíði skipsins er á loka stigi og var vonast til að það kæmi til landsins í júni, en nú er ljóst að sú áætlun stenst ekki.
Sex menn, Íslendingar og Danir, eru ytra á vegum Gæslunnar til eftirlits, og er nú unnið að því að koma þeim heim.
