10.02.2010 12:04

Skondið: Þurfti að sigla frá Sandgerði til Njarðvíkur, til að fara til baka landleiðina

Svolítið skondin saga er að gerast varðandi bátinn Kidda Lár GK 501. Bátur þessi er frá Sandgerði og á að fara í miklar endurbætur hjá Sólplasti ehf. í Sandgerði, en til að komast þangað þurfti hann að sigla til Njarðvikur, þar sem hann verður tekinn upp í mjög fullkominn dráttarvagn hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem mun síðan draga bátinn til Sandgerðis, þ.e. til Sólplasts.
Ástæðan fyrir þessu eru tvær. Báturinn er of breiður fyrir brautina í Sandgerði og síðan hefur hrunið á Íslandi valdið því að nú eru engir kranar á Suðurnesjum til að lyfta bát eins og þessum á land.
Mun Kiddi Lár því verða tekinn upp um leið og skemmtibáturinn Regína De la Mar sem er í Njarðvikurslipp til viðgerðar verður sjósett, en sá bátur er nú á vagninum.


  2704. Kiddi Lár GK 501, bíður í Njarðvíkurhöfn eftir því að komast landleiðina til Sandgerðis


   Vagninn góði og fullkomni, með skemmtibátinn 7660. Regína De la Mar í Njarðvikurslipp i morgun © myndir Emil Páll 10. febrúar 2010