25.01.2010 14:33
Ramona og Ásdís
Við lestur síðu Jóns Grunnvíkings í gær rak ég alveg í rogastans, þegar ég sá að auglýstur var til sölu bátur, sem ég vissi það síðast um að eftir að hafa sokkið 7 sm. V. af Siglunesi 9. maí 2005 og verið dreginn síðan til hafnar á Siglufirði marandi í hálfu kafi og falið út af skipaskrá sökum þess, var þarna kominn og til sölu. Hafði ég strax samband við Jón sem veitti mér þær upplýsingar sem koma fram fyrir neðan myndasyrpu þá sem hér er og sendi mér jafnframt mynd af Ásdísi, en svo heitir báturinn í dag, í verki.
1900. Ramóna með Ásdísina í togi í einhverjum vöruflutningum að koma inn til Grunnavíkur © mynd Marý Linda Jóhannsd. 2008
2094. Ásdís, eins og hún er í dag og kom fram í auglýsingu á síðu Jóns Grunnvíkings
2094. Jóna Björg GK 304 (sá rauði) í Sandgerðishöfn á tíunda áratug síðustu aldar © mynd Emil Páll
Framleiddur af Selfa Baat A/S í Þrándheimi í Noregi 1990. Skutgeymir 1997 og breyting á skut 1998. Eins og kemur fram fyrir ofan myndirnar sökk hann.
Fyrirtæki Jóns keypti bátinn á Siglufirði og var hann sóttur þangað af 1900. Ramónu og dreginn til Ísafjarðar þar sem allt var tekið innan úr honum og honum breytt í flutningapramma, til að flytja byggingaefni o.fl. til Grunnavíkur. Hann er þó í raun hvorki skráður né afskráður. Þ.e. að ef hann er lagaður upp þá fær hann fulla skráningu að nýju, en er strípaður í dag og að sögn Jóns mikill burðarjálkur.
Nöfn: Jóna Björg GK 304, Júlía GK 400, Júlía SI 62, Ásdís Ólöf SI 23 og núverandi nafn: Ásdís.
