16.12.2009 14:19
Manns saknað - skipsfélaga hans bjargað
Fimmtán tonna bátur fékk á sig brotsjó við eyjuna Skrúð við Fáskrúðsfjörð á níunda tímanum í morgun með þeim afleiðingum að bátnum hvolfdi. Tveir menn voru í bátnum og er búið að koma öðrum þeirra til bjargar. Hins mannsins er nú leitað.
Lögregla og björgunarsveitir eru með mikinn viðbúnað. Þá eru björgunarbátar, fiskiskip og kafarar á staðnum og hafa aðstoðað við leit og björgunarstörf. Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar væntanleg á næstu mínútum. Veður er ágætt á slysstað. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 08:40 í morgun tilkynning um rautt ljós sem sást í námunda við Skrúð. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út og eru þær á staðnum með björgunarskip, báta og kafara. Einnig var haft var samband við nærstadda báta á svæðinu og þeir beðnir að svipast um eftir bát sem vitað var að væri við Skrúð, skv. upplýsingum frá Landsbjörgu og Landhelgisgæslunni. Kallaðir voru út kafarar á Austurlandi og einnig sótti Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar kafara á Höfn kl. 11:10.Neyðarblyss sást kl. 09:30 frá Vattanesi og kom fiskibátur að gúmmíbjörgunarbát kl. 09:35, einn maður var um borð í bátnum og var hann heill á húfi en hafði hann misst af félaga sínum en tveir menn voru um borð í bátnum sem saknað var.
Leit stendur yfir á svæðinu.
Heimild: mbl.is
