14.12.2009 21:23
Aflakóngarnir eru á Hornafirði
Aflahæsti smábátur landsins er ekki á Vestfjörðum heldur er gerður út úr árósi á suðausturhorni landsins. Hásetahluturinn var fimmtán milljónir króna í fyrra, og verður enn hærri í ár.
Skipverjarnir fjórir á Ragnari SF veiddu á línu og lönduðu alls 1.329 tonnum á síðasta fiskveiðiári. Þeir settu met þegar þeir veiddu yfir 200 tonn í ágústmánuði og líka þegar komu með yfir 20 tonn í einum róðri.
Vinna og aftur vinna er lykillinn að þessum árangri, segir skipstjórinn, Arnar Þór Ragnarsson, í viðtali við Stöð 2. Til að komast á miðin þurfa þeir að róa út úr ósi Hornafjarðarfljóts sem oft er ófær, en annars sóttu þeir miðin í sumar einnig frá Seyðisfirði og Stöðvarfirði.
Og þeir mokveiddu svo af þorski og ýsu að Vestfirðingar, sem undanfarin ár hafa trónað á toppnum, höfðu ekki roð við þeim, og þénuðu auðvitað vel. Hásetahluturinn á síðasta ári var tæpar 15 milljónir króna.
Heimild: visir.is
