10.12.2009 19:09
Ásta B lenti í hremmingum í innsiglingunni til Grindavíkur í morgun, en allt fór vel
Beitningavélabáturinn Ásta B kom til Grindavíkur í morgun en þessi stærsti plastbátur sem smíðaður hefur verið á Ísland heldur áfram til Noregs seinna í dag. Bræðurnir Hrafn Sigvaldson og Helgi Mogensen, Margrét Ragna Arnardóttir eiginkona Hrafns ásamt Bjarna Sigurðssyni frá Húsavík gera bátinn út frá Tromö í Noregi. Ásta B var smíðuð hjá Trefjum í Hafnarfirði en kom til Grindavíkur til þess að taka veiðarfærin um borð.
Að sögn Helga gekk sigling bátsins til Grindavíkur mjög vel en að vísu lentu þeir í hremmingum í innsiglingunni því báturinn snerist í ölduganginum en allt fór þó vel og báturinn reyndist afar vel í þessari fyrstu þolraun.
Ásta B er beitningavélabátur með 25 þúsund króka og tekur 40 kör í lest. Til samanburðar eru flestir íslenskir plastbátar með 15 þúsund króka. Það sem gerir bátinn einstakan er að um borð er vinnslukerfi frá 3Xstál sem er óvenjulegt fyrir bát af þessari stærð. Hrafn segir að yfirleitt sé ekki hægt að landa óslægðum afla í Noregi og því sé nauðsynlegt að geta slægt og hausað um borð. Mikilvægt sé að öllum ferskum fiski blæði í 20 mínútur svo hráefnið sé sem ferskast.
Að sögn Hrafns stefna þeir að því að smíða 3 svona báta í viðbót á næstu árum. Hrafn reiknar með að heildarkostnaðurinn við smíði Ástu B sé um 10 milljónir norskar krónur.
Í Noregi er einnig kvótakerfi en það er nokkuð frábrugðið því íslenska. Að komast inn í norska kerfið kostar 10 til 15 prósent af því sem þeir hefðu þurft að greiða til að komast inn í það íslenska að því er Hrafn segir. Undanfarin tvö ár hafa þeir gert út 15 tonna bát, Sögu K, frá Husvik í Noregi og gert það gott en flestir íslenskir plastbátar eru í þessari stærð.




