29.11.2009 15:26

Bergþór Hávarðarson bráðkvaddur


     Bergþór Hávarðarson, um borð í Dúu RE 400 þar sem hann var vélstjóri, er báturinn dró Fanney HU 83 til Njarðvíkur 26. júní sl © mynd Emil Páll í júní 2009


   Bergþór Hávarðarson © mynd Þóra Björk á síðunni vinaminni.123.is

Þó ég sé nú ekki mikið fyrir að minnast látins fólks, geri ég nú undantekningu, þar sem ég var að frétta að ævintýramaðurinn Bergþór Hávarðarson hafi orðið bráðkvaddur 10. nóv. sl. Um hann er fjallað á síðunni vinaminni.123.is.
Bergþór þessi, þó hann væri ekki allra, var með skemmtilegri mönnum sem maður hefur kynnst á ævinni. En ég sem blaðamaður kynntist honum mikið og vel, er hann bjó í nokkur ár um borð í gamla Búrfellinu í Njarðvíkurhöfn, með þá bjargföstu trú sína að gera skipið að viðgerðaskipi fyrir skútur, staðsett á St. Martin í nágrenni við Porto Rico í Mið-Ameríku.
Nokkra ára barátta hans við kerfið, sem fannst þetta vera tóm della sigraði hann þó og flaggaði skipinu til Svíþjóðar og gaf því nafnið Ásbjörn. En það duggði ekki til, því þó hann kæmi þessu skipi sem allir töldu ónýtt, fyrir eigin vélarafli til Garðabæjar, endaði það með að verða kurlað niður uppi á Akranesi.

Nú fyrir nokkrum mánuðum, eftir að ég birti mynd af honum og Svafari Gestssyni á síðu Þorgeirs, sem tekin var á Húsavík, er þeir voru þar með Ghanamönnum árið 2006 varðandi sölu á olíubátnum Héðni Valdimarssyni, flutti Svafar mér kveðju hans.

Áður hafði ég oft fengið kveðjur frá Bergþóri og eins átti hann það til að hringja í mig svona til að spalla en hann var mjög fróður  og hafði gaman að segja frá. Því vil ég nú minnast hans með þessum orðum, enda einn af þeim sem maður man alltaf eftir.
 - Blessuð sé minning hans -
         Emil Páll Jónsson


    Svafar Gestsson og Bergþór Hávarðarson, ásamt Ghanamönnum á Húsavík 9. apríl 2006, en þangað komu Ghanamennirnir til að skoða gamla olíubátinn Héðinn Valdimarsson