07.11.2009 11:20
Aron ÞH 105 / Stormur SH 333
586. Aron ÞH 105 í höfn í Njarðvík © mynd Emil Páll
586. Stormur SH 333 í höfn í Njarðvík © mynd Emil Páll
Smíðaður hjá Evera-Werft í Niendorf-Ostsee, Þýskalandi 1959 og kom til heimahafnar á Ísafirði á jólunum 1959. Báturinn er teiknaður af Egil Þorfinnssyni.
Bátur þessi var upphaflega smíðaður fyrir Guðfinn sf. í Keflavík og átti að heita Árni Geir KE 31, en vegna greiðsluvandamála hjá Ísfirðingunum, fékk Guðfinnur sf. þeirra bát þar sem hann var fyrr tilbúinn, en Hrönn hf. fékk þennan, en báðir bátarnir eru systurskip og hinn heitir nú Arnar í Hákoti SH.
Báturinn lá við bryggju í Kópavogshöfn í nokkurn tíma og sökk þar við bryggju 19. mars 2003, er verið var að bíða með að farga honum. Var honum náð upp og spurning hvað ætti að gera við hann og því var hann færður út á legu á Kópavognum. Þar slitnaði hann upp 30. nóv. 2006 og rak í strand undir Gálgahrauni i Garðabæ. Náð út aftur 2.des. 2006 og afskráður sem fiskiskip. Í nóv. 2007 var hann tekinn upp í Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem til stóð að endurbyggja hann og breyta í hvalaskoðunarskip. Var þó tekin aftur niður og lagt við bryggju í Njarðvíkurhöfn í júlí 2008, þar sem ljóst var að bið yrði á framkvæmdum og óttast var að báturinn myndi þorna of mikið uppi í slipp.
Nöfn: Guðbjörg ÍS 14, Hrönn ÍS 46, Sæbjörg SH 23, Farsæll SH 30, Langanes ÞH 321, Björg Jónsdóttir ÞH 321, Fagranes ÞH 321, Aron ÞH 105, Reistarnúpur ÞH 273 og núverandi nafn Stormur SH 333.
Skrifað af Emil Páli
