Færslur: 2013 Maí

23.05.2013 18:30

Skálafell ÁR 20


                   1171. Skálafell ÁR 20, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll

Smíðanúmer 34 hjá Storviks Mek. Verksted A/S, Kristiansund, Noregi 1968. Lengdur 1971. Í mars 1998 kom það til landsins eftir gagngerðar endurbætur hjá Nauta í Póllandi. Smíðaður hafði verið nýr framendi, afturskipið breikkað, ný brú og allar vistaverur skipverja endurnýjað. Skipið var nánast eins og nýtt, enda endurnýjað af 92/100 hlutum.

Úreldingastyrkur hafði verið samþykktur í desember 1994, en var ekki notaður.

Meðan Sigurður Ágústsson ehf., var skráður eigandi var skipið gert út af Portlandi ehf., Þorlákshöfn. Kumbla sem átti skipið áður var dótturfyrirtæki Sigurðar Ágústssonar.

Skipið er með IDno 7122546.

Selt til Rússlands 17. janúar 2007.

Nöfn: Leisund N-415-A, Skálafell ÁR 20, Hegri KE 107, Heimir KE 77, Kópur ÁR 9, Ársæll SH 88, Grótta HF 35, Grótta RE 26, Leifur Halldórsson SH 217, Leifur Halldórsson ÁR 217, Draupnir ÁR 21 og núverandi nafn: Draupnir M-0421

23.05.2013 17:28

Hrefna GK 58, Fram KE 105 og Vörðurfell KE 117
            1197. Hrefna GK 58, 1271. Fram KE 105 og 1248. Vörðufell KE 117 í Sandgerði, fyrir mörgum árum © myndir Emil Páll

23.05.2013 16:35

Sæþór KE 70


                   1173. Sæþór KE 70 í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll

Smíðanr. 9 hjá Skipavík hf. Stykkishólmi 1971 eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Brann og sökk út af Ólafsvík 16. júlí 2001.

Nöfn: Sæþór KE 70, Sigrún GK 380, Egill SH 195, Egill SH 193, Krossey SF 26,  Jón Erlings GK 222, Dagný GK 295 og Dritvík SH 412.

23.05.2013 15:46

Særós KE 207
              1152. Særós KE 207, í Keflavíkurhöfn © myndir Emil Páll

Smíðanr. 388 hjá Bátalóni hf., Hafnarfirði 1971.

Síðustu árin  var báturinn notaður sem þjónustubátur við laxeldi á Sundunum í Reykjavík, þegar laxeldið var upp á sitt besta. Slitnaði báturinn upp af legu á Grafarvoginum og rak upp í Geldinganes, fyrir þó nokkrum árum og er þar ennþá..

Nöfn: Hrönn KE 48, Magnús Jónsson BA 35, Þórunn Jónsdóttir RE 101, Þórunn Jónsdóttir EA 205, Þórunn Gunnarsdóttir KE 207, Særós KE 207, Sif ÁR 207 og Lax III.

23.05.2013 14:20

Myndir frá brunaskemmdum í Bláfelli þ.e. af Óríon BA 34

Ljóst er að aðalvél Óríon BA 34, er trúlega ónýt eftir brunann í Bláfelli á Ásbrú í fyrrakvöld, einnig allt rafmagn bátsins. Þá þarf trúlega að pússa afturenda bátsins og setja síðustu yfirferðina að nýju. Aðrir bátar sem voru á staðnum sluppu við eldsvoðann. Sjálfvirka slökkvikerfið bjargaði því að húsið fór ekki allt saman, en fyrir utan þess að sprauta vatni yfir allt, þá lokuðst eldvarnarhurðir, þannig að eldurinn komst ekki lengra, þó sót hafi gert það.

Hér eru myndir sem ég tók núna eftir hádegi á staðnum.


              Ljóst er að þrífa þarf bátinn og á þessari síðustu sést að fara þarf yfir plastið á 7742. Óríon BA 34, eftir brunann í fyrrakvöld í Bláfelli á Ásbrú sem talin er vera íkveikja.
           Hér fyrir aftan bátinn hefur trúlega einhverjum eldfimum vökva verið slett á gólfið og kveikt þar í © myndir Emil Páll, í dag, 23. maí 2013

23.05.2013 13:47

Bolli KE 46
                    1147. Bolli KE 46, í Keflavik © myndir Emil Páll, um 1980

Smíðaður í Noregi 1962. Dekkaður og skráður sem fiskiskip 1970. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 17. okt. 1983.

Nöfn: Jóhanna Eldvík GK 333, Jóhanna Eldvík HU 4, Fiskines RE 92 og Bolli KE 46

23.05.2013 12:45

Smári KE 29 - ennþá til, en nú sem frambyggður fiskibátur


                         1092. Smári KE 29, í Keflavikurhöfn © mynd Emil Páll

Smíðaður hjá Bátalóni hf., Hafnarfirði 1969. Skráður sem skemmtibátur 1998, en fljótlega aftur skráður sem fiskiskip. Breytt í frambyggðan bát.

Nöfn: Portland VE 97, Jóel SH 133, Smári KE 29, Hrólfur HF 29, Hrólfur AK 29, Hrólfur AK 229, Einsi Jó  GK 19, Frú Magnhildur VE 22, Sæfaxi VE 30 og núverandi nafn: Glófaxi II VE 301

23.05.2013 11:20

Albert Ólafsson KE 39 og Hafborg KE 54


                                    1082. Albert Ólafsson KE 39 og 1103. Hafborg KE 54 í Keflavíkurhöfn, fyrir ansi löngu © mynd Emil Páll

23.05.2013 10:37

Sandvík KE 25


                  1073. Sandvík KE 25, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll


                  1073. Sandvík KE 25 o.fl. í Sandgerðishöfn © mynd Emil Páll

Smíðanúmer 101 hjá Skipasmíðastöð KEA, Akureyri 1968.

Strandaði á skeri við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi 11. apríl 1995. Við björgunaraðgerð degi síðar, valt báturinn af skerinu og sökk. Flak bátsins fannst í byrjun júlí 2007, 11 árum eftir að hann sökk

Nöfn: Dagur ÞH 66, Dagur SI 66, Dagur ÓF 8, Sandvík KE 25, Sandvík GK 325 og Kolbrún ÍS 74.

23.05.2013 09:23

Hafdís KE 43


                1049. Hafdís KE 43, í Skipasmíðastöð Njarðvikur © mynd Emil Páll, 1975

Smíðaður sem opinn bátur á Ísafirði 1952. Dekkaður í Keflavík 1960.  Talinn ónýtur og tekinn af skrá 11. des. 1975

Nöfn: (ekki vitað hvað hann hét sem opinn bátur) Vörðunes KE 43, Natan KE 43 og Hafdís KE 43.

23.05.2013 08:34

Fiskines GK 264


                   992. Fiskines GK 264, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll

Smíðaður hjá Dröfn hf., Hafnarfirði 1965, eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Breytt í húsbát, staðsettum í Reykjavíkurhöfn

Nöfn: Benedikt Sæmundsson GK 28, Svanur ÞH 100, Svanur ÞH 105,  Aron ÞH 105, Fiskines GK 264, Byr NS 192, Byr ÓF 58, Jakob Valgeir ÍS 84, Máni ÍS 54, Máni HF 54, Jón Forseti ÍS 108, Jón Forseti ÓF 4, Jón Forseti ÍS 85 og  núverandi nafn: Jón Forseti RE 300


23.05.2013 06:45

Anna AK 11


                    961. Anna AK 11 o.fl. í Reykjavík © mynd Emil Páll

Smíðaður í Stykkishólmi 1964. Sökk við Hvammstanga 1976, náð upp aftur og gert við hann. Sökk eftir bruna út af Kögurvík 23. júlí 1981. Mannbjörg

Nöfn: Sæborg II RE 143, Hrefna VE 500, Freysteinn NK 16, Freysteinn SH 125, Stakkafell HU 9, Anna AK 11 og Silfá ÍS 188.

23.05.2013 05:21

Íkveikja hjá Bláfelli á Ásbrú. Oríon BA 34 stórskemmdur

Töluvert tjón varð í bátasmiðjunni Bláfelli á Ásbrú, er eldur kom upp í húsinu i fyrrakvöld, sem rannsakað er sem íkveikja. Ljóst er að mesta tjónið varð á Óríon BA 34, sem var nánast tilbúinn, en hann er sviðinn að aftan, og sótugur, en aðal tjónið mun þó vera að  völdum sjálfvirka slökkvikerfisins sem úðaði vatni yfir allt og hálffyllti bátinn. Við það var vélin, tæki og rafmagnið umflotið vatni. Á þessu stigi er því ekki ljóst hvað verður um bátinn, en tryggingarmenn skoða bátinn núna í morgunsárið og í framhaldi af því kemur í ljós hvað gert verður.

Birti hér frásögn Víkurfrétta af málinu frá því í gær.


Fréttir | 22. maí 2013 14:17

Eldur í bátasmiðju á Ásbrú

Eldur kom upp í bátasmiðju á verktakasvæðinu á Ásbrú seint í gærkvöldi. Sjálfvirkt slökkvikerfi er í húsnæðinu og hafði það slökkt nær allan eld þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á vettvang.

Nú er unnið að rannsókn á upptökum eldsins í húsinu. Þegar komið var að húsinu seint í gærkvöldi vaknaði strax grunur um að brotist hafi verið inn í húsnæðið því útihurð hafði verið spennt upp. Því er m.a. rannsakað hvort eldur hafi verið borinn að byggingunni.

Ekki er ljóst hversu mikið tjónið er en þó er ljóst að sjálfvirka slökkvikerfið kom í veg fyrir að stórbruni yrði í gærkvöldi.

VF-myndir: Hilmar Bragi22.05.2013 23:00

Útflutningur Sólplasts á yfirbyggingu sótt í dag

Fljótlega eftir áramót sagði ég frá því að Sólplast væri að útbúa yfirbyggingu sem færi til Noregs og ekki bara það, því hún fer á fyrrum íslenskan bát Selmu Dögg BA 21, en eigandi hans flutti með hann til Noregs fyrir nokkrum árum og hefur nú selt hann innan Noregs. Benti hann nýju eigendunum á að Sólplast lauk í fyrra við yfirbyggingu á samskonar bát Berg Vigfús GK og því væri kjörið að fá fyrirtækið til að gera aðra slíka yfirbyggingu sem yrði flutt til Noregs, í hlutum þ.e. hún yrði sett saman ytra og á bátinn.
Lauk Sólplast við að gera yfirbygginguna í vetur, en hún var þó ekki sótt fyrr en í dag og tók ég þá þessar myndir.


                                         Inn í þennan bíl var yfirbyggingin sett
             Yfirbyggingin var sett öll inn í þennan bíl og sjáum við hana alla komna þangað inn á neðstu myndinni. Maðurinn í bláa samfestingnum sem sést á fjórum myndanna er Kristján Nielsen, hjá Sólplasti © myndir Emil Páll, 22. maí 2013

22.05.2013 22:30

Húnaröst í Njarðvíkurslipp


              1070. Húnaröst, í Skipasmíðastöð Njarðvíkur © mynd Emil Páll. Þar sem mikil umfjöllun hefur farið nýlega fram hér á síðunni um þetta skip, sleppi ég því nú.