Færslur: 2011 September

01.09.2011 00:10

Gleðilegt kvótaár

Af vefnum mbl.is:

Útgerðum landsins hefur nú verið úthlutað aflamarki fyrir nýtt kvótaár, sem hefst á morgun. stækka

Útgerðum landsins hefur nú verið úthlutað aflamarki fyrir nýtt kvótaár, sem hefst á morgun. mbl.is/ÞÖK

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2011/2012, sem hefst á morgun. Úthlutað er 281 þúsund tonnum í þorskígildum talið, samanborið við um 261 þúsund tonn á sama tíma í fyrra. Aukninguna má að mestu rekja til aukinnar úthlutunar í þorski og gullkarfa auk þess sem síld er úthlutað nú, en ekki var búið að gefa út leyfilegan heildarafla í síld á sama tíma í fyrra. Frá þessu er greint á vef Fiskistofu í kvöld.

Alls fá 612 skip úthlutað aflamarki í ár, fiskveiðiárið 2011/2012, samanborið við 637 skip fiskveiðiárið 2010/2011. 50 stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 84% af því aflamarki sem úthlutað er, en alls fá 502 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú.

Sé litið til þeirra 10 sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 10,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,22% og þá Þorbjörn hf. með 5,58%. Helsta breytingin frá því í fyrra er sú að Brim hf. sem fékk næstmestu úthlutað þá, er nú í  sjöunda sæti með 3,88% af heildinni, samanborið við 6,87% í fyrra, og Útgerðarfélag Akureyringa sem ekki var á lista í fyrra er í níunda sæti núna eða með 2,92% af heildinni, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Þar segir ennfremur að þrjár heimahafnir skeri sig úr, varðandi úthlutun til skipa. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík, eða 11,35% af heildinni, samanborið við 14,3% í fyrra. Næstmest fer til Vestmannaeyja eða 10,6% og þá til skipa með heimahöfn í Grindavík, eða 9,5% af heildinni, og er það í báðum tilvikum svipað hlutfall og í fyrra.