Færslur: 2010 Janúar

13.01.2010 17:59

Ásbjörn RE 400 / Búrfell ÁR 40 / Búrfell KE 140 / Ásbjörn

Þá kemur nú bátur sem búið var í nokkuð lengi, eftir að hann var í fyrstu afskráður, en hugmyndir voru uppi um að gera hann að viðgerðarverkstæði fyrir skútur á erlendri grundu, en því miður endaði hann með að vera brotinn niður, eftir að hafa þvælst um nokkrar hafnir. Það merkilega var þó að eftir að hann var sagður ónýtur með öllu, sigldi hann fyrir eigin vélarafli milli hafna hér innanlands.


                                17. Ásbjörn RE 400 © mynd Snorri Snorrason


                         17. Búrfell ÁR 40 © mynd Snorrason


                     17. Búrfell KE 140 © mynd Hafþór Hreiðarsson


             17. Ásbjörn © mynd í eigu Ljósmyndasafns Akraness

Smíðanúmer 36 hjá Kaarbös Mek. Verksted A/S í Harstad, en skrokkurinn hafði smíðanúmer 49 hjá Ankerleöken Verft A/S í Flörö í Noregi árið 1963. Lagt í maí 1991, tekinn af íslenskri skipaskrá 1992.

Eftir að báturinn hafði verið úreltur hóf Bergþór heitinn Hávarðarson undirbúning að því að breyta honum í viðgerðarskip fyrir skútur og fór verkið fram við bryggju í Njarðvik. Eftir baráttu við íslensk stjórnvöld og fyrrum eiganda, þar sem m.a. átti að draga bátinn til Írlands til niðurrifs, bjargaði það málunum að útgerð dráttarskipsinsHvanneyri sem átti að draga hann út varð gjaldþrota. Tókst Bergþóri þó að lokum að vinna sigur í málinu 27. mars 1993 og flaggaði hann þá sænska fánanum á bátnum og gaf honum nafnið Ásbjörn. Var báturinn þinglýstur sænskum ríkisborgara f.h. Bergþórs. 1. maí 1993. Þann 11. sept. 1993 fór Ásbjörn í reynslusiglingu. 1. júní 1996 lét Ásbjörn síðan aftur úr höfn og nú sigldi hann fyrir eigin vélarafli til Garðarbæjar og síðan var förinni heitir til St. Martin, í nágrenni Porto Rico í Mið-Ameríku, endurskráðum með íslenskum fána. Þangað átti hann að draga með sér einn úreltan 44. Kristbjörgu VE 70. Ekkert varð þó úr þessum áformum og fóru leikar þannig að eftir þó nokkra veru var báturinn færður út á Arnarvoginn í lok október 2002. Fljótlega var honum þó lagt við bryggju í Hafnarfirði, þaðan var hann að lokum dreginn um mánaðarmótin mars/apríl 2004 upp á Akranesi þar sem hann var tættur niður í brotajárn.

Meðan báturinn var í Njarðvíkurhöfn bjó Bergþór um borð í honum.

Nöfn: Ásbjörn RE 400, Búrfell ÁR 40, Búrfell KE 140, Búrfell KE 45, Búrfell EA 930 og Ásbjörn

13.01.2010 16:43

Ex Sæljós ÁR 11, Steinunn Finnbogadóttir BA 325 og 1084. Friðrik Sigurðsson ÁR 17

Hér eru þrír bátar, tveir þeirra komast vonandi fljótlega niður, en sá þriðji mun standa þarna fram á vorið, en verið er að breyta honum í sumarbústað á sjó.


   F.v. 1084. Friðrik Sigurðsson ÁR 17, 245. Steinunn Finnbogadóttir BA 325 og 467. ex Sæljós ÁR 11 © mynd Emil Páll 13. jan. 2010.

13.01.2010 16:37

Ex Maggi Ölvers, Tony og Gerður

Hér sjáum við þrjá báta sem staðið hafa um tíma uppi í Njarðvíkurslipp og sjálfsagt er óvíst hvenær þeir fara þaðan. Já ástæðan, er að tveir þeirra eru ekki lengur á ísl. skipaskrá þó annar þeirra beri þó enn íslenskt nafn og sá þriðji var tekin hressilega í gegn í haust og hefur síðan staðið þarna ómerktur með öllu.


   F.v. 1125. Gerður ÞH 110, Toný ex 46. Moby Dick og 1315. ex Maggi Ölvers GK 33
                                          © mynd Emil Páll 13. janúar 2010

13.01.2010 16:32

Gæfa VE 11 í sleðanum

Hér sjáum við Gæfu VE 11 í sleðanum á leið upp í Njarðvikurslipp, nú síðdegis eftir að það fór að skyggja.


    1178. Gæfa VE 11, í sleðanum, á leið upp í Njarðvikurslipp © mynd Emil Páll 13. jan. 2010

13.01.2010 16:16

Tjaldur KE 64


                856. Tjaldur KE 64 © mynd í eigu Ljósmyndasafns Akraness

Smíðaður í Frederikssund 1935. Fyrsti íslenski báturinn til að reyna snurpinót. Var það 1940, en báturinn var í eigu Haraldar Böðvarssonar og skipstjóri Árni Þorsteinsson frá Sandgerði. Hafði Árni farið til Svíþjóðar 1938 til að skoða veiðarnar. Dæmdur ónýtur vegna fúa 8. september 1965.

Nöfn: Ægir MB 96, Ægir AK 96, Ægir ST 50, Ægir HU 10, Ægir ÁR 10, Tjaldur RE 64 og Tjaldur KE 64.

13.01.2010 13:18

Hásteinn ÁR 8 / Tjaldur ÍS 116


                      551. Hásteinn II ÁR 8 © mynd Snorrason


                             551. Tjaldur ÍS 116 © mynd Snorrason


Smiðaður í Strandby, Danmörku 1956. Kom til Stokkseyrar skömmu eftir páska 1956. Fórst í Jökulfirði, Ísafjarðardjúpi 18. des. 1986 ásamt þremur mönnum.

Nöfn. Hásteinn II ÁR 8, Tjaldur KE 64 og Tjaldur ÍS 116

          

13.01.2010 13:10

Hilmir KE 7 / Þinganes SF 25


                566. Hilmir KE 7 © mynd í eigu Ljósmyndasafns Akraness


        566. Þinganes SF 25 © mynd Þorgeir Baldursson


                     566. Þinganes SF 25 © mynd Snorrason

Smíðaður í Lubeck-Travemunde, Þýskalandi 1960. Nýtt stýrishús sett á bátinn í Daníelsslipp 1978. Skemmdist af eldi í Hornarfjarðarhöfn 15. júlí 1989. Úreldur 27. des. 1989 og brenndur á áramótabrennu á Höfn 31. des. 1989.

Kjölurinn lagður í byrjun desember 1959. Afhentur 28. feb. 1960 og kom til Keflavíkur 9. mars 1960.

Nöfn: Hilmir KE 7, Jökull SH 77 og Þinganes SF 25.

13.01.2010 00:13

Loksins fullt hús

Þá kom að því að það tókst að birta syrpu um sama bát, þar sem myndir eru af öllum þeim nöfnum sem báturinn hefur borið. Umræddur bátur er rúmlega hálfrar aldar gamall og bíður nú örlaga sinna við bryggju í Hafnarfirði. Áður átti að draga hann í pottinn í Danmörku en af því varð ekki, þá var hann dreginn til Njarðvíkur til að brjóta niður, en ekkert varð af því og nú er hann kominn til Hafnarfjarðar til þess að vera brytjaður niður.


                          120. Höfrungur II AK 150 © mynd Snorri Snorrason


                     120. Höfrungur II GK 27 © mynd Snorrason


                         120. Höfrungur II GK 27 © mynd Hafþór Hreiðarsson


   120. Höfrungur II GK 27, á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur
© mynd í eigu Ljósmyndasafns Grindavíkur, ljósm.: Guðfinnur Bergsson


    120. Höfrungur II GK 27, á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur
© mynd í eigu Ljósmyndasafns Grindavíkur, ljósm.: Guðfinnur Bergsson


                                 120. Erling KE 140 © mynd Emil Páll


           120. Kambaröst SU 200 © mynd Hafþór Hreiðarsson


                                    120. Kambaröst RE 120 © mynd Emil Páll

Smíðanr. 11 hjá Thaules Mek. Verksted A/S, Avaldsnes, Noregi 1957. Yfirbyggður 1985.

Átti að seljast Hólmadrangi hf., Hólmavík í okt. 1994, en Grindavíkurbær neytti forkaupsréttar og seldi bátinn Sóltindi hf., Grindavík, sem strax eftir söluna flutti lögheimili sitt til Keflavíkur, enda voru það eingöngu Keflvíkingar sem stóðu að fyrirtækinu.

Fyrsta skipið sem bar heimahöfn í Reykjanesbæ, en eftir þá nafngift bera flest skip heimahöfn í Keflavík eða Njarðvík.

Átti að seljast í niðurrif til Danmerkur í sept. 2008 og fara utan í togi togarans Grétu SI, en af því varð aldrei og því var báturinn áfram bundinn við bryggju í Þorlákshöfn, þar til hafnsögubáturinn Ölver frá Þorlákshöfn dró hann til Njarðvíkur 5. nóv. 2009. Funi hf. hafði þá keypt bátinn á nauðungaruppboði og stóð til að brytja hann niður í Njarðvíkurslipp. Ekkert varð þó úr því og sótti hafnsögubátur Hafnfirðinga, Hamar bátinn og dró til Hafnarfjarðar 30. des. 2009 og stendur til að hann verði brytjaður þar niður, en sem stendur er hann við bryggju í firðinum.

Nöfn: Höfrungur II AK 150, Höfrungur II GK 27, Erling KE 140, Kambaröst SU 200 og núverandi nafn: Kambaröst RE 120.

12.01.2010 22:00

Halldór Kristjánsson GK 93

Hér kemur enn einn litli þilfarsbáturinn sem smíðaður var á Ísafirði.


                        526. Halldór Kristjánsson GK 93 © mynd Emil Páll

Smíðaður á Ísafirði 1963. Rak upp í fjöru í Sandgerðishöfn 5. janúar 1984. Talinn ónýtur og settur upp á gæsluvelli í Sandgerði 18. feb. 1987.

Nöfn: Haflína ÍS 123, Halldór Kristjánsson GK 4 og Halldór Kristjánsson GK 93.

12.01.2010 21:28

Jóhann KE 25
           485. Jóhann KE 25 © myndir Emil Páll

Smíðaður á Ísafirði 1936. Úreldur 16. sept. 1983.

Nöfn: Laxinn ÍS 558, Guðrún ÍS 558, Guðrún SK 54, Guðrún SU 54,  Guðrún ÍS 558, og aftur Guðrún SU 54, Rúna RE 39, Jóhann KE 25 og Sigsteinn RE 32.

12.01.2010 20:05

Þekkja menn þennan? - Rétt svar Stakkanes

Hér birti ég mynd af skipi sem byggt var fyrir íslendinga og ég veit ekki annað en að það hafi ávalt verið gert út af íslendingum og virðist halda enn nafni sínu, þó svo að það sé ekki lengur á íslenskri skipaskrá.

               Eins og sést fyrir neðan myndina kom svar fljótlega, sem er Stakkanes


                                                   Þekkið þið þetta skip?

12.01.2010 19:04

Röst RE 107


        409. Röst RE 107 © mynd Emil Páll 1980

Smíðaður í Hafnarfirði 1954. Sökk við bryggju í Höfnum 27. maí 1967 og tekin þá af skrá. Endurbyggður af Einari Gunnarssyni, Keflavík 1967-1971 og verkinu lokið í Stykkishólmi 1970-1971. Settur síðan aftur á skrá 1971. Brenndur síðan á áramótabrennu í Vogum 11. des. 1991. Þó ekki úreltur með samþykkt fyrr en 3. sept. 1994 og afskráð 11. okt. 1994. eða tæpum þremur árum eftir að hann var brenndur.

Nöfn: Faxi GK 129, Matti SH 4, Kristín NK 17, Röst NK 17, Röst RE 107, Hegri KE 107, Búi GK 107, Báran SI 14, Gæfa VE 11 og Gæfa II VE 112.

12.01.2010 16:55

Snarfari HF 112 / Víðir KE 4

Hér sýni ég tuttugu og fimm ára gamlar myndir af litlum þilfarsbáti úr eik, sem smíðaður var fyrir tæpum 50 árum og endaði á leikvelli fyrir 16 árum.


  406. Snarfari HF 112 © mynd Emil Páll 1984


                            406. Víðir KE 4, í Njarðvík © mynd Emil Páll 1985

Smíðaður á Ísafirði 1962. Úreltur 3. okt. 1994 og settur á leikvöll.

Erling Brim Ingimundarson benti mér á þá skemmilegu sögu að báturinn er smíðaður af Gunnari Sigurðssyni, heima á hlaði hjá honum. Gunnar er tengdafaðir Rabba Odds, sem heitir fullu nafni Jón Rafn Oddsson. Þessi sami Rabbi lét smíða í Bátalóni bát sem hann lét heita í höfuð tengdaföður síns Gunnar Sigurðsson ÍS 13. Sá bátur er í dag 1381. Magnús KE 46 og er í eigu Erlings Brim.

Nöfn: Farsæll ÍS 13, Farsæll ÍS 522, Farsæll RE 2, Snarfari SI 13, Snarfari SH 58, Snarfari HF 112,  Víðir KE 4, Keilir KE 11, Kópur EA 325 og Kópur BA 126.

12.01.2010 14:33

Bára KE 131


               7298. Bára KE 131, í Grófinni í dag © mynd Emil Páll 12. janúar 2010

12.01.2010 14:22

Smá (Njarðvíkur)slipp-syrpa

Hér birtist smá myndasyrpa sem ég tók eftir hádegi í dag í Njarðvíkurslipp og er birt svona til gamans  m.a.                              

                                    Friðrik Sigurðsson ÁR 17


               
1084. Friðrik Sigurðsson ÁR 17, ný málaður, en án stýris og skrúfu

                                                        Inn og út um gatið

 Hér er starfsmaður slippsins á leið út um gat sem sett hefur verið á síðu 84. Gandí VE 84

                    Sennilega fer nú mastrið og lúkarskappinn


  Þessi gamli bátur 284. Sólborg RE 22, bíður sjálfsagt lítið annað en að fara á brennu, þó eru alltaf verið að hirða eitthvað úr honum og nota. Sl. haust kom í ljós bátur í Reykjavíkurhöfn sem var með stýrishúsið af honum og nú sýnist mér að menn séu annað hvort að fjarlægja mastrið eða lúkarskappann, nema hvorutveggja sé © myndir Emil Páll í dag 12. janúar 2010