04.04.2014 11:18

Uni Þórir Pétursson - minning
              Fæddur: 19. mars 1942. Dáinn: 24. mars 2014

Það var fyrir rúmum 72 árum að fiskur gekk inn með landinu við Hofsós. Á sama augnabliki kom í heiminn faðir minn sem ég er að kveðja í hinsta sinn fyrir sína síðustu sjóferð í dag. Mjög fljótt kom í ljós að faðir minn var fiskimaður mikill og eru óteljandi ferðinar sem farnar voru á hinum ýmsu bátum þar sem hann var við stjórnvölinn og ávallt með góðan afla. Ungur fór ég með föður mínum til sjós og í minni fyrstu ferð var ég látinn standa á smurolíubrúsa við stýrið og stýra. Eftir þetta var ég stýrimaður hjá föður mínum í 35 ár og á svo löngum tíma skiptust á skin og skúrir.

Faðir minn var þeim eiginleikum gæddur að finna á sér hvar fiskurinn hélt sig og hvenær var best að sækja. Oft kom það fyrir að róið var um helgar og aðra almenna frídaga. Það varð mér örugglega til góðs því aldrei var tími til að detta í það og því er ég ennþá bindindismaður.

Ekki var farið á sjó bara til að fara á sjó og aldrei í vitlausu veðri. Þess vegna missti hann aldrei mann eða maður slasaðist um borð. Eitt sinn var hann á veiðum á Þistilfirði á Berghildi SI 137 og var kominn með fullfermi. Áhöfnin var að taka inn síðustu tonnin á dekkið þegar báturinn byrjar að sökkva að aftan og rýkur þá Hákon niður í lúkar og átti faðir minn von á því að hann væri að sækja björgunarvestin. Hákon kom án þeirra aftur upp og rauk þá upp á þak þar sem gúmmíbjörgunarbáturinn var en enginn kom báturinn í sjóinn. Þegar betur var að gáð var Hákon að mynda ósköpin en hann hafði bara sótt myndavélina niður. Gísli Jóns hafði forðað sér upp á afturgálgann og sat þar þegar báturinn sökk alltaf dýpra. Þegar sjórinn náði upp að stígvélunum lyfti hann bara fótunum hærra til að blotna ekki. Við þetta flaut fiskurinn af dekkinu og tókst föður mínum þá að keyra bátinn upp. Svona voru menn öryggir um sig og treystu skipstjóra sínum að engin ástæða var til að óttast.

Oft var því haldið fram að faðir minn væri á gráu svæði við fiskveiðar en aldrei var hann með ólögleg veiðarfæri, réttindalausa menn eða eitthvað að lögskráningu. Tækjakostur þessa tíma var nú ekki upp á marga fiska til staðsetningar og stundum kom fyrir að kappsemin við veiðar teygði stundum á línum. Öfund annarra gerði það að verkum að kærum rigndi stundum inn hjá Landhelgisgæslunni. Ekkert eða fátt kætti föður minn meira en að stríða þeim mönnum og fann hann það alltaf á sér ef þeir voru væntanlegir. Þá gerði hann oft eitthvað til að skemmta sér og öðrum um borð. Margar sögur eru til um menn frá gæslunni sem hafa reynt að sitja fyrir honum en alltaf hefur eitthvað sem verður ekki skýrt valdið því að það misfórst. Einnig hafði hann þann eiginleika að þurfa bara að halla sér smá stund og þá kom hann með fyrirmæli um nýjan stað til að veiða á, annan en upphaflega hafði verið tekin stefnan á. Hann var fiskimaður af Guðs náð. Faðir minn var eiginmaður, faðir, tengdafaðir, afi og langafi góður. Hann vildi allt fyrir alla gera sem sakna og syrgja sárt núna. Farðu í friði og mega höfuðáttirnar Norður, Austur, Suður og Vestur leiðbeina þér.

                                                       Þorgrímur Ómar Tavsen
                           

              - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

          Votta aðstandendum samúð mína
                                             EMIL PÁLL JÓNSSON

 

AF FACEBOOK:

 
Þorgrímur Ómar Tavsen Athöfnin var mjög falleg í fallegu veðri,Takk fyrir góðan hug og kveðjur