31.07.2013 18:25

Magnús SH. gjörónýtur eftir brunann

                                              Eldur í Magnúsi SH. Mynd: RÚV
 

Fiskiskipið Magnús SH er gjörónýtt eftir bruna í gær. Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna. Mjög líklega kviknaði í skipinu út frá rafmagni, segir yfirvélstjóri á Magnúsi SH frá Hellisandi.

Skipið var dregið logandi út úr skipasmíðastöð á Akranesi í gær þar sem það hafði verið í yfirhalningu í fjóra mánuði. Það átti að vera reiðubúið til veiða á ný innan örfárra vikna. Virði skipsins er að minnsta kosti þrjú hundruð milljónir. Eyðileggingin skipsins er algjör, segir Sigurður V Sigurðsson skipstjóri, og innviðir þess gerónýtir.

Að sögn Atla Más Gunnarssonar, yfirvélstjóra á skipinu, er ljóst að eldsupptök voru niðri í nýju káeturými. Þar fór ekki fram rafsuðu- eða logsuðuvinna, en áður var talið að hugsanlega hefði kviknað í út frá logsuðutæki. Því segir Atli mjög líklegt að eldurinn hafi komið upp vegna rafmagns. Ekki er þó ljóst hvers konar rafmagnstæki kveikti eldinn.

Texti og mynd: RÚV.is