03.12.2012 11:35

Klæddust flotgöllum til öryggis

visir.is

Skipið kom nýtt til landsins jólin 2010 og hefur reynst afar vel. mynd/óskar friðriksson
Skipið kom nýtt til landsins jólin 2010 og hefur reynst afar vel. mynd/óskar friðriksson

Um 30 gráða slagsíða kom á Þórunni Sveinsdóttur VE þegar verið var að hífa veiðarfæri skipsins úr festu út af Vestfjörðum. Lítil hætta er talin hafa verið á ferðum en talsverð bræla var á miðunum þegar atvikið átti sér stað. Skipverjar höfðu þó varann á og klæddust flotgöllum til öryggis, eins og Slysavarnaskóli sjómanna leggur áherslu á að sé gert.

Eyjafréttir segja frá þessu en í viðtali við miðilinn segir Sigurjón Óskarsson, útgerðarmaður Þórunnar, að enginn sjór hafi komist í skipið og hvorki skip né áhöfn hafi verið í hættu.
Verið var að toga í 25 metra vindi þegar trollið festist á um 40 faðma dýpi. Þegar reynt var að losa trollið sló togspilum út og bremsur festust. Um leið kom sjór inn á skipið og það hallaðist um 30 gráður, segir í frétt Eyjafrétta.