03.12.2012 10:45

Jónína Brynja ÍS 55

mbl.is:

Björgun skilaði 25-30 milljónum

Jónína Brynja ÍS 55 brotin á strandstað. Myndin var tekin um miðja síðustu viku.stækka

Jónína Brynja ÍS 55 brotin á strandstað. Myndin var tekin um miðja síðustu viku. mbl.is/Reimar

Guðbjartur Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs, sem átti fiskibátinn Jónínu Brynju, telur að tekist hafi að bjarga verðmætum úr bátnum fyrir 25-30 milljónir. Hann segir að tjón vegna strands bátsins sé því nálægt 100 milljónum.

Jónína Brynja strandaði við Straumnes fyrir rúmri viku. Tveir menn, sem voru um borð, björguðust. Báturinn var aðeins nokkurra vikna gamall, en hann kostaði 132 milljónir.

Guðbjartur segir að tekist hafi að bjarga talsvert af búnaði úr bátnum. Hann segist ekki vitna nákvæmlega verðmæti búnaðarins, en giskar á 35-30 milljónir.

Ekkert hefur verið hægt að huga að flaki bátsins síðan á miðvikudag, en vont veður hefur fyrir vestan síðustu daga og ekki hægt að komast upp í fjöru við Straumnes. Guðbjartur segist ekki eiga von á að hægt verði að bjarga meiru úr bátnum úr þessu.

Útgerðin hefur þegar undirbúið kaup á nýjum bát sömu gerðar. Guðbjartur segir að ekki sé búið að skrifa undir kaupsamning, en vonast eftir að það verði gert fljótlega. Hann segir að byggja verði bátinn frá grunni. Það taki 6-10 mánuði að smíða svona skip.