19.11.2012 23:34

Strandveiðibátar fá 26 milljóna sekt


Smábátar

Um þúsund tilkynningar sendar út um sektir vegna umframafla

Fiskistofa hefur lokið álagningu gjalds vegna umframafla strandveiðibáta á síðustu vertíð og nemur gjaldið alls um 26,5 milljónum króna, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Þegar um strandveiðar ræðir er lagt á gjald sem nemur verðmæti þess afla sem var umfram 650 þorskígildiskíló í veiðiferð, skipt hlutfallslega eftir tegundum. Lagt var á fyrir hvern mánuð fyrir sig og hverjum báti sem lenti í álagningu send tilkynning þess efnis fyrir hvern mánuð.

Alls voru 1.028 slíkar tilkynningar sendar út og nemur upphæð gjaldsins sem lagt var á um 26,5 milljónum kr. sem greiðast í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Þetta er talsverð aukning frá vertíðinni í fyrra en þá voru sendar út 969 tilkynningar og nam samanlögð upphæð gjaldsins þá um 24,7 milljónum kr.

Sjá nánar http://www.fiskistofa.is/umfiskistofu/frettir/nr/803