21.08.2012 19:43

Risastórt verksmiðjuskip í eigu Hollendinga veldur deilum í Ástralíu

fiskifrettir.is

Skipið, sem er 9.500 brúttótonn, veiðir uppsjávarfisk við Tasmaníu og víðar


Verksmiðjuskipið umdeilda.


Risastórt verksmiðjuskip, sem er í eigu Hollendinga, veldur nú miklum deilum í Ástralíu. Skipið hefur verið fengið til að veiða uppsjávarfisk við Tasmaníu djúpt suður af Ástralíu og víðar, að því er fram kemur á vefnum fishupdate.com

Verksmiðjuskipið heitir FV Margiris og er annað stærst skip sinnar tegundar í heiminum. Það er 9.500 brúttótonn að stærð og 142 metrar að lengd. Skipið getur unnið og fryst meira en 240 tonn á dag og hefur frystilestar fyrir 6.200 tonn.

Það er ástralska fyrirtækið Seafish Tasmania sem hefur milligöngu um að fá skipið og það fær meðal annars að veiða 18 þúsund tonn af hrossastirtlu.

 

Umhverfissinnar hafa brugð hart við og halda því fram að skipið geti valdið óbætanlegum skaða á fiskstofnum við Ástralíu og krefjast þess að það verði sent til baka. Deilan er komin inn í ástralska þingið og ráðherrar í ríkisstjórn landsins eru ekki á einu máli.

 

Ástralska sjávarútvegsráðuneytið bendir hins vegar á að veiðarnar byggist á vísindalegri ráðgjöf og fari fram undir ströngu eftirliti. Því sé engin hætta á ferðum.