06.08.2012 17:15

Höfrungur III með metafla um borð

mbl.is:

Frystitogarinn Höfrungur III AK-250. stækkaFrystitogarinn Höfrungur III AK-250. HB Grandi

 

Frystitogarinn Höfrungur III AK-250 er að leggjast að bryggju í Reykjavíkurhöfn með gríðarlegan afla, einn þann mesta sem skipið hefur áður komið með að landi.

"Ég held að þetta geti nú verið ein stærsta löndunin. Þetta er ágætt í tonnum, svona í einni löndun. Ætli við séum ekki með um 900 tonn upp úr sjó á 30 dögum. 500 tonn af ufsa. Hitt er karfi, þorskur ýsa og makríll," sagði Ævar Smári Jóhannsson, skipstjóri á Höfrungi III.

Hröktust undan ísingu á Halamiðum

"Það hefur gengið mjög vel. Það var ísing að trufla okkur í upphafi túrs. Það kom hafís yfir veiðisvæðið og við hröktumst undan honum á Halamiðum, vestur af landinu og svo eftir að hann fór, þegar hann snéri sér í suðaustan átt, var alveg ofboðslega mikil ufsaveiði. Það var mikið meiri veiði heldur en við réðum við. Við vorum ekkert á veiðum allan sólarhringinn. Ætli við höfum ekki verið með trollið á veiðum í 2-3 tíma á sólarhring. Það voru þrjú til fjögur skip á veiðum þarna. Allir í svona veiði," sagði Ævar Smári sem er einn yngsti skipstjóri landsins, einungis 34 ára gamall.

Fara út aftur á föstudag á makrílveiðar

"Við förum á föstudaginn á makrílveiðar vestur af landinu. Sjórinn er alveg kraumandi í makríl. Við vorum vestur á Breiðafirði þegar við komum að vestan þá kastaði ég trollinu, ekkert nálægt neinum skipum. Það voru engin skip búin að vera þarna. Bara þar sem ég má vera, fór suður fyrir línuna því við megum ekki vera norðan við ákveðna línu. Og það var bara 10 tonn eftir klukkutímatog. Stórum og góðum makríl og hreinum," sagði Ævar Smári.

Höfrungur III AK-250 er 1.000 tonna skip, smíðað í Kristjánssundi í Noregi árið 1988. Það er 456 tonn að þyngd. Síðast landaði það 3. júlí og kom þá með tæp 643 tonn að landi. Áður landaði það 1. júní og þá var aflinn 435 tonn.

Skipið hefur rúmlega þúsund tonna aflamark í þorski, um 935 tonn af karfa og tæp ellefu hundruð tonn af ufsa auk fleiri tegunda.