05.07.2012 15:15

Bilun í tækjabúnaði Heimaeyjar VE

mbl.is:

Heimaey siglir inn í höfnina í Vestmannaeyjum. stækkaHeimaey siglir inn í höfnina í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Bilun hefur komið fram í Heimaey VE, nýju skipi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum en skipið kom nýsmíðað til landsins frá Chile í byrjun maímánaðar. Haft er eftir Eyþóri Harðarsyni, útgerðarstjóra Ísfélagsins, á fréttavefnum Eyjafréttir að ekki sé um alvarlega bilun að ræða.

Eyþór segir að smábilun sé í stjórnborði fyrir aðalvél skipsins. Sérfræðingur frá Rolls-Royce, framleiðanda vélarinnar, komi til landsins í kvöld og athugi málið. Hann segir vélina og búnaðinn í kringum hana í ábyrgð og svona lagað geti fylgt því að taka nýja hluti í notkun. Þá sé best að fá sérfræðing til þess að leysa málin.

Hann segir það koma í ljós síðar í dag hversu mikinn tíma taki að lagfæra bilunina en tekur fram að stjórnendur útgerðarfélagsins séu ekki að fara á taugum vegna málsins.