25.04.2012 20:41

Hátt fargjald með gömlum síldarbáti

Fiskifrettir.is

Greiða 35 þúsund krónur á mann fyrir sex tíma siglingu

Lydia Eva.

Aðeins eitt eintak af gömlum síldarbátum við England frá fyrri hluta síðustu aldar hefur varðveist og hefur báturinn verið endurbyggður. Fjár til reksturs hans verður nú aflað með því að bjóða farþegum í stutta siglingu gegn háu gjaldi.

Skipið sem hér um ræðir er gufubáturinn Lydia Eva sem byggður var árið 1930. Þúsundir slíkra báta voru að veiðum við England á sínum tíma en þeir heyra nú sögunni til. Styrktarsjóður eignaðist Lydiu Evu árið 1990. Báturinn hefur verið gerður upp fyrir 1,2 milljónir punda (245 milljónir ISK).

Lydia Eva hefur verið höfð til sýnis sem sögulegar minjar en nú á að víkka út notkunarmöguleikana og afla tekna til að standa undir kostnaði. Boðið verður upp á siglingu með farþega tvisvar í mánuði milli Suffolk og Norfolk. Átta farþegar hafa greitt 175 pund á mann (35.500 ISK) fyrir farið í fyrstu ferðinni.