18.04.2012 12:40

Eru rekstraraðilar en ekki eigendur

fiskifrettir.is:

Neptune ehf. er ekki kaupandi að norska skipinu Röttingöy.

Röttingöy landar afla á Fáskrúðsfirði fyrir nokkrum árum. (Mynd: Óðinn Magnason)

,,Það er rangt að Nepune ehf. hafi keypt norska uppsjávarskipið Röttingöy eða eigi dótturfélag á Kýpur. Hið rétta er að við höfum tekið að okkur að verða rekstraraðili skipsins til að byrja með," sagði Ágúst Guðmundsson hjá Neptune ehf. á Akureyri í samtali við Fiskifréttir.

Ágúst vill með þessu leiðrétta frétt hér á vefnum í gær, en hún var byggð á upplýsingum sem hafðar voru eftir seljanda skipsins á norska fréttavefnum midtsiden.no. Kaupandi skipsins er félag á Kýpur sem Íslendingar eiga aðild að.

Skipið verður gert út til veiða á sardínu við strendur Marokkó og mun leggja upp aflann þar í landi.  Ágúst sagði að stefnt væri að því að veiðar gætu eftir mánaðartíma að loknum breytingum skipinu sem gerðar verða í Slippnum á Akureyri.