29.02.2012 16:43

Vestmannaeyjarbær stofnar félag um smíði nýrrar ferju

visir.is;

Herjólfur er eina ferjan sem er í boði nú, og þykir ekki nógu góð að mati heimamanna.
Herjólfur er eina ferjan sem er í boði nú, og þykir ekki nógu góð að mati heimamanna.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í hádeginu að stofna félag um smíði og eignarhald á nýrri Vestmannaeyjaferju. Auk Vestmannaeyjabæjar verður ríkinu, öðrum sveitarfélögum á áhrifasvæði Landeyjahafnar, lífeyrissjóðum og áhugasömum fjárfestum boðin aðkoma að félaginu að því er fram kemur í tillögunni sem var samþykkt.

Með þessu vill bæjarstjórn Vestmannaeyja stuðla að því að ný ferja verði keypt svo hægt sé að nýta Landeyjarhöfn betur og um leið bæta samgöngur til og frá Vestmannaeyjum. Reikna má með því að kostnaðurinn við smíði og hönnun sé á bilinu 4 til 5 milljarðar og mun undirbúningur að stofnun félagsins hefjast nú strax í dag samkvæmt tilkynningu frá bænum.

Gert er ráð fyrir því að forsenda félagsins sé leigusamningur við ríkið til amk. 10 ára, sem tryggir að hluthafar fái hlutafé sitt greitt til baka á rekstrartímanum auk lágmarksávöxtunar.