07.02.2012 09:30

Slasaðist á sjó og fær ekki laun

dv.is:

Albert slasaðist um borð í bátnum Ástu B í Noregi fyrir tæpu ári
Albert hefur barist fyrir því í tíu mánuði að fá greidd laun fyrir þann tíma sem hann var frá vinnu vegna vinnuslyss.

Albert hefur barist fyrir því í tíu mánuði að fá greidd laun fyrir þann tíma sem hann var frá vinnu vegna vinnuslyss.

Það er hálfasnalegt að slasast úti í Noregi og að maður þurfi að fara á hausinn," segir Albert Þór Jónsson sem slasaðist illa á fæti um borð í bátnum Ástu B þann 1. apríl í fyrra þegar hann rakst utan í hlífðarlausan rafal. Báturinn er í eigu norsku útgerðarinnar Eskøy AS sem er í eigu Íslendinga.

Albert þurfti að vera frá vinnu í mánuð vegna slyssins en hefur hvorki fengið greidd laun fyrir þann tíma né bætur og leitar nú réttar síns. Hann er kominn með lögfræðinga í málið, bæði norska og íslenska, og er þegar búinn að leggja út næstum hálfa milljón króna í lögfræðikostnað.
"Maður hefur ekkert efni á því að leggja út fleiri hundruð þúsund til að ná í launin sín," segir Albert sem gerir ráð fyrir að kostnaðurinn hækki enn frekar.

Með varanlegan taugaskaða
Þegar Albert hóf störf hjá Eskøy AS var honum tjáð að hann væri að fullu tryggður, eins og lög gera ráð fyrir. Þrátt fyrir það hefur það reynst honum þrautin þyngri að sækja launin sem hann telur sig eiga rétt á. Hann segist ekki vita hvort hann eigi einnig rétt á einhverjum bótum vegna slyssins en telur það þó líklegt. Albert er með varanlegan taugaskaða í fætinum sem veldur honum óþægindum. Hann segist þó harka það af sér og er í fullri vinnu í dag.