31.01.2012 14:30

Hröð atburðarás þegar Hallgrímur sökk - dælurnar biluðu á ögurstundu

Vísir Innlent 31. janúar 2012

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.

Rannsóknarnefnd sjóslysa ræddi í gær við Eirík Inga Jóhannsson, sem komst lífs af frá Sjóslysinu í Noregi þar sem þrír félaga hans létu lífið. Formaður nefndarinnar Jóna Arilíus Ingólfsson, forstöðumaður rannsóknarnefndar sjóslysa, segir að skipið Hallgrímur Si-77 hafi verið í góðu ástandi þegar það hélt í sína síðustu ferð til Noregs í síðustu viku.

Hann segir það hafa komið fram þegar rannsóknarnefndin ræddi við Eirík í gær að enginn aukafarmur hafi verið um borð, einungis troll og vírar sem því tengjast.

Eiríkur lýsti atburðarásinni fyrir nefndinni í gær á þann veg að stýrisbúnaður hafi bilað. Jón Arilíus segir að í kjölfarið hafi komið í ljós að sjósöfnun hafi orðið í skipinu

"Sem hefur sennilega haft þessar afleiðingar og þegar það átti að dæla slógu dælurnar út," sagði Jón um erfiðar aðstæður sjómannanna.

Hann segir atburðarásina hafa verið mjög hraða. Tveir mannana hafi ekki komist í björgunargalla, en Eiríkur og einn mannana hafi þó náð því. Hann segir galla mannsins sem lést ekki hafa verið bilaðan.

"Hann hefur líklega ekki lokað búningnum almennilega þegar hann fór í sjóinn," segir Jón.

Hann segir erfiðlega hafa gengið fyrir skipverjana að komast í björgunarbátinn sem var um borð því skipið hafi þá verið komið á hliðina og björgunarbáturinn var laskaður. Skipverjarnir fóru því allir í sjóinn á sama tíma og áttu erfitt með að athafna sig vegna veðurs

"Það er náttúrulega erfitt að athafna sig í svona veðri. Þarna var stormur og 10 til 15 metra ölduhæð."

Um líðan Eiríks segir Jón: "Hann er náttúrulega búinn að upplifa mikið og erfiðar stundir. Það hefur sín áhrif."