20.01.2012 18:00

Gunnar GK 501

Fyrir nokkrum árum var stofnsett fyrirtæki í Sandgerði með þeim tilgangi að skrásetja hérlendis norska báta, sem myndu fá síðan kvóta til að veiða í íslenskri lögsögu. Keypti þetta fyrirtæki þrjú skip og komu tvö þeirra til landsins, áður en lokað var fyrir þessa leið. Hér sjáum við annað skipanna.


                 2526. Gunnar GK 501, í höfn í Hafnarfirði © mynd Jón Páll´Ásgeirsson

Smíðanr. 27 hjá Eidsvik Skipsbyggeri A/S, Eidsvik, Noregi 1971. Lengdur 1974, yfirbyggður, brú hækkuð o.fl. 1980.

Innfluttur 2001 og kom til Hafnarfjarðar fimmtudaginn 27. september 2001. Var hann keyptur til útgerðar sem línuveiðari, en var með öllu kvótalaus. Í lok janúar 2002 hélt skipið til Brasilíu til að veiða túnfisk og sverðfisk og síðan var því siglt um jólin 2002 til Úrugvæ og leigt þarlendum aðilum, en fyrri eigandi í Noregi átti skipið. Meðan skipið var í Úrugvæ og Sómalíu var því rænt af sjóræningjum, auk þess sem það lenti í flóðunum miklu um jólin og áramótin 2004 og sökk skipið undan strönd Sómalíu.

Nöfn: Værland SF 232-A, Varland M-58-H, Varlandi F-258-NK, Gunnar GK 501 og Marie.