04.01.2012 15:00

Strandaði við Skessuhelli

Hér kemur mynd sem ég hef ekki séð áður og er frá Jóhanni Sævar Kristbergssyni. Sýnir hún frá strandi Eyrúnar ÁR 66, 16. febrúar 1989. Báturinn strandaði að morgni er hann hafði nýlega verið sjósettur í Dráttarbraut Keflavíkur, eftir viðgerð. Hafði vélin stöðvast og rak hann fyrst á land vestan við dráttarbrautina þ.e. fyrir neðan núverandi bátasafnið í Duushúsum og var náð út þaðan en þá tók ekki betra við því nú rak hann upp í fjöru norðan megin við slippbryggjuna nánast þar sem Skessuhellir er í dag. Dró Goðinn bátinn úr með aðstoð vélskóflu og jarðýtu. Þrátt fyrir þetta urðu skemmdir á bátnum litlar.

Bátur þessi er til ennþá í dag og er nú gerður út frá Sandgerði sem Sæljós GK 2. Annars birtist saga bátsins fyrir neðan myndina.


        1315. Eyrún ÁR 66, norðan við slippbryggjuna í Keflavík sem þá var og er stefni hans við núverandi Skessuhellir © mynd Jóhann Sævar Kristbergsson, 16. feb. 1989. Slippbryggjan, brautin fyrir sleðann og annað það sem sést er nú farið undir smábátahöfnina í Grófinni.

Smíðanúmer 44 hjá Slippstöðinni hf., á Akureyri 1973.

Nöfn: Eyrún EA 157, Eyrún SH 57, Eyrún GK 157, Eyrún ÁR 66, Eyrún ÁR 26, Maggi Ölvers GK 33 og núverandi nafn: Sæljós GK 2.