01.01.2012 16:50

Mokveiði síðustu daga

bb.is

Frá Bolungarvíkurhöfn.
Frá Bolungarvíkurhöfn.


Mokveiði hefur verið hjá bolvískum smábátum undanfarna daga. Í gær lönduðu þeir 53,2 tonnum og rúmum 58 tonnum á miðvikudag. Margir bátanna hafa komið með yfir 10 tonn á einum degi sem þykir mjög gott hjá smábát. Vilborg ÍS hefur komið með mestan afla að landi að undanförnu eða 11,4 tonnum í gær og 13 tonnum á miðvikudag. Hrólfur Einarsson ÍS kom með 10,4 tonn í gær og Guðmundur Einarsson ÍS kom með rúm 9 tonn. Að sögn Ólafs Þ. Benediktssonar hjá hafnarvoginni í Bolungarvík, hefur meiri afli borist á land í þessum mánuði en á sama tíma í fyrra. Fimm af bolvísku bátunum eru komnir með yfir 100 tonn í mánuðinum, Vilborg ÍS, Sirrý ÍS, Hrólfur Einarsson ÍS, Guðmundur Einarsson ÍS og Einar Hálfdáns ÍS.

Allir bolvísku bátarnir eru að veiðum í dag. Í fyrramálið er síðan von á Valbirni ÍS og Þorláki ÍS. Aflinn er að mestu þorskur og ýsa. "Það er mikið af fiski á miðunum segja sjómenn og þeir eru á góðum bátum. Það eru feiknaduglegir menn í Bolungarvík og þeir eru alveg einstaklega harðsæknir. Þá búum við svo vel hér við Ísafjarðardjúp að það er hægt að róa í flestum veðrum," segir Ólafur. Hann segir aflann fara vítt og breytt um landið. "Mikið af aflanum fer til vinnslu hjá Fiskvinnslu Jakobs Valgeirs hér í Bolungarvík, töluvert fer til Íslandssögu á Suðureyri og restin er seld í burtu," segir Ólafur.