29.09.2011 19:42

Hannaði fjölnotaskip

bb.is:

Grunnútgáfa af fjölnotaskipinu.
Grunnútgáfa af fjölnotaskipinu.
Skipatæknifræðingurinn Sævar Birgisson frá Súðavík hefur hannað 24 metra langt fjölnotaskip fyrir íslenskan og erlendan markað. Sævar er framkvæmdastjóri Skipasýn ehf. en hann vann um árabil sem framkvæmdastjóri í Skipasmíðastöð Marsellíusar á Ísafirði. Fjölnotaskipið er nýjung hér á landi en sérstaða þess er tvíþætt annars vegar er gert ráð fyrir því að skipið verði smíðað úr samloku trefjaplasti með nýrri aðferð, þar sem ekki eru notuð mót. Skipsformið er byggt upp með kjarnaefnum og trefjaplast lagt utan á það og innan. Hinsvegar er búnaður til fiskveiða og annarrar notkunar ekki fastur hluti skipsins heldur er honum komið fyrir á þilfari skipsins í sérútbúinni einingu með því að hífa eininguna um borð frá bryggju.

Þannig verður sérstök eining fyrir hverja tegund veiðafæra og annarrar notkunar. Þessar einingar geta verið samsettir eftir þörfum eigenda allt eftir því hvort skipið er að fara á línu- eða netaveiðar, í rannsóknarleiðangur eða með ferðamenn í siglingu. Þetta gerir skipaeigendum kleift að haga seglum eftir vindi - stunda fiskveiðar, rannsóknir og ferðamannaþjónustu, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.
Hönnun skipsins gerir ráð fyrir því að það verði drifið af rafmótor sem fengi orku frá rafhlöðum sem hlaða mætti með orku frá landi og frá dísel vél sem staðsett væri í bátnum. Hugsunin er sú sama og í tvinnaflkerfi bíla sem þekkist vel í dag, að nota raforku framleidda með vatnsorku til skemmri ferða en framleiða síðan raforku með díselvél í lengri ferðum. Þar sem skipið yrði úr trefjaplasti myndi það verða talsvert léttara en hefðbundin stálskip. Þar af leiðandi yrði það umhverfisvænna og kostnaður við rekstur þess mun lægri.