15.08.2011 12:00

Lakatamía og 1. tilraun

Svona tilsýndar virðist koma skipsins til Helguvíkur ekki ganga eins og vera bæri. Fyrst er skipið kom fyrir Garðskaga sigldi það ekki inn Stakksfjörðinn, heldur hélt frekar leið sinni eins og það stendi á höfuðborgarsvæðið, eða væri á leið á móti dráttarbátunum Jötni og Magna sem voru að koma til að aðstoða það. Þó tók það nokkuð áður en skipin mættust, nýja stefnu og nú var sú stefna á Helguvík og eftir nokkra siglingu kom Auðunn með hafnsögumann úr Keflavík og síðan var beðið eftir komu dráttarbátanna úr Reykjavík í dágóða stund. Þegar þeir komu, hófu þeir að draga skipið í átt að Helguvík og það nokkuð drjúgan spotta og gekk það furðuvel. Er komið var upp undir Hólmsbergið fór Magni að draga skipið aftur á bak inn í Helguvík en Jötunn var fastur við framendann, frá því að skipið var dregið í átt að víkinni. Þá gerðist óhappið, festan við Magna slitnaði eða allavega brást og þar sem frekar var stutt upp í fjöru bjargaði það málum að Jötunn var fastur við skipið að framanverðu og náði að draga það frá landi og síðan sigldi skipið út á Flóa þar sem það liggur ennþá.
Þegar hef ég sýnt myndir af atburðum svo og af báðum dráttarbátunum úr Reykjavík og nú sýni ég nokkrar myndir af skipinu, en þó ekki á þeim tímapunkti þegar það nálgaðist fjöruna. Þá mun ég trúlega sýna myndir af Auðunn er hann fór út með hafnsögumanninn.

Taka skal fram að þessi frásögn er eins og ég sá hana fyrir mér, en ekki staðfest af einum er tóku þátt í atburðarrásinni.


         Lakatamía, komið inn fyrir Garðskaga en nánast á stefnu til höfuðborgarinnar


                                            Skipið nálgast Helguvíkina


                                    Skipið er 183 metra langt og 32 metra breitt


                   Hér nálgast það Helguvík með aðstað dráttarbátanna úr Reykjavík
              Þarna er skipið á siglingu frá Helguvík og nógu langt frá landi © myndir Emil Páll, 14. ágúst 2011