22.06.2011 19:32

Nakki: Skúta Bergþórs heitins Hávarðssonar

Núna í kvöld birti ég myndir af skútu er ber nafnið Nakki og hefur skipskrárnúmerið 2455. Eftir þá birtingu fékk ég ábendingu um það á Facebookinu, hvort þetta væri ekki gamla skútan sem Bergþór heitinn Hávarðarson sigldi á hingað til lands og lenti í hrakningum á. Bar ég því saman upplýsingar frá Siglingamál og þær upplýsingar sem ég hafði um bátinn og jú, um sömu skútu er að ræða, eina að Bergþór heitinn sagði hana heita Nakkur, en hún er skráð hérlendis sem Nakki.

Mun ég því birta nokkrar staðreyndir um skútuna fyrir neðan myndirnar sem ég endurbirti nú.
    2455. Nakki, í Grindavíkurhöfn í dag © myndir Emil Páll, 22. júní 2011

Framleidd hjá Frans Maas, Hollandi 1967.

Berþór keypti skútuna á St. Martin sem er nálægt Porto Rico í Mið-Ameríku og hélt á henni til Íslands. Lenti hann í miklum hrakningum á leiðinni eftir að brotsjóir höfðu leikið hann grátt. Að lokum varð Gísli Sigmarsson, skipstjóri á Katrínu VE 47 var við hann á reki nálægt Vestmannaeyjum og dró hann að landi. Skútan var tekin á land í Eyjum og stóð þar uppi til 1993 að hún var flutt til Reykjavíkur og í ágúst 1994 var hún loks flutt á athafnarsvæði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur þar sem endurbygging hófst á henni í september 1994. Ekki man ég hvenær þeim lauk, en einstaklingur búsettur í Vogum hafði keypt hana 1993 og síðan flutti hann í Kópavog 1994. Annað veit ég ekki fyrr en að hún var skráð hér á landi árið 2003, þá með heimahöfn í Reykjavík en í eigu aðila í Mosfellsbæ.