18.06.2011 09:00

Akraneshöfn - Ný og bætt aðstaða fyrir smábáta

Af vef Faxaflóahafna:

flotbryggja_akranes_2011 
Nýja flotbryggjan á Akranesi 

Teknar hafa verið saman meðfylgjandi upplýsingar til að gera í stuttu máli grein fyrir forsendum og kostnaði við byggingu á nýrri hafnaraðstöðu fyrir smábáta í Akraneshöfn, sem verið er að leggja lokahönd á nú í lok maí 2011. Ákveðinn vöxtur og sóknarfæri eru í dag í útgerð smærri fiskibáta og um leið hafa þessir bátar orðið vandaðri og dýrari tæki og kalla á góða hafnaraðstöðu. Ekki er þess nokkur kostur að tryggja þessum bátum góðar og öruggar viðlegur í höfnum nema við sérútbúnar flotbryggjur þar sem skýlt er og viðlegur báta öruggar allt árið. Sú aðstaða sem fyrir hendi var í Akraneshöfn fyrir smábáta var fullnýtt og við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2011 var ákveðið auka við og bæta aðstöðu smábáta í Akraneshöfn.  

Ákveðið var að leita tilboða í nokkur verkefni til aðstöðubóta fyrir smærri báta í Gömlu höfninni í Reykjavík og á Akranesi.
Verkin voru boðin út af verkfræðistofunni Mannvit fyrir hönd Faxaflóahafna sf í almennu útboði, en áður voru þessi verk auglýst til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu.Tilboð voru opnuð miðvikudaginn 23. febrúar 2011.

Alls bárust tilboð í þessi verk frá tíu aðilum sem hver um sig bauð í flestum tilfellum í alla eða flesta verkáfangana. Útboðið tók til framleiðslu og útvegunar á flotbryggjum, festingabúnaði og ýmsum öðrum búnaði svo sem landgöngum og fingrum til uppröðunar báta við bryggjur. Auk efnisútvegunar skyldu bjóðendur sjá um flutning, uppsetningu og frágang á bryggjum og búnaði.

Uppsetningu og frágangi á nýrri aðstöðu fyrir smábáta á Akranesi er nú lokið á tilsettum tíma og aðstaðan tilbúin til notkunar. Þessi nýja aðstaða eru fjórar tuttugu metra steyptar flotbryggjur að breidd 3,5 m, sem tengdar eru saman og settar fyrir utan eldri flotbryggjur við Bátabryggju.  Um leið og aukin aðstaða fyrir smærri báta fæst við þessar bryggjur mynda þær skjól fyrir þá aðstöðu sem fyrir var. Settir voru 22 nýjir armar fyrir viðlegur báta og með þessum aðgerðum hafa fengist 40 ný viðlegupláss fyrir smærri báta auk bættrar aðstöðu fyrir skammtímalegu báta yfir sumartímann.

Það var fyrirtækið Króli ehf. sem sá um útvegun á flotbryggjum og búnaði og annaðist uppsetningu og frágang aðstöðu.
Um leið er rétt að geta þess að undirverktaki Króla við framleiðslu á flotbryggjunum er fyrirtækið Loftorka í Borgarnesi og framleiðsla á steyptum flotbryggjum því orðin íslensk framleiðsla.

Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir verður alls um 33 millj. kr.