30.04.2011 10:33

Dragnótadeilan fyrir dómsstóla

mbl.is:

Á dragnótarveiðum. stækka

Á dragnótarveiðum. mbl.is/Jim Smart

Útgerð í Grímsey hefur höfðað mál á hendur Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins til viðurkenningar á ólögmæti banns við dragnótaveiðum í Skagafirði.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag. Samþykkt hefur verið að málið fái flýtimeðferð.

Útgerðarmenn dragnótabáta hafa gagnrýnt bann við dragnótaveiðum inni á sjö fjörðum sem sjávarútvegsráðherra setti í fyrravor. Meðal annars hafa íbúar Grímseyjar sent frá sér bænarskjal vegna málsins en bannið hefur alvarleg áhrif á afkomu útgerða þar og margra íbúa. Þannig hafa dragnótaveiðar verið drjúgur hluti tekna útgerðarfélagsins Sigurbjörns ehf. Litið er á málið sem einskonar prófmál í deilunum við ráðuneytið.

Það er höfðað á þeim grundvelli að réttur útgerðarinnar til veiða með dragnót sé atvinnuréttindi sem njóti verndar stjórnarskrár. Byggir stefnandi á því að vilji ráðherra innleiða nýja stefnu hafi honum borið að gera það með því að leggja frumvarp fyrir Alþingi. Með því sé tryggt að geðþótti einstakra ráðherra geti aldrei verið grundvöllur skerðingar atvinnuréttinda. Þá er talið að reglugerðin hafi ekki stoð í þeim lögum sem vísað er til.