29.04.2011 19:38

Jóhanna EA 31

Hér sjáum við einn gamlan sem bíður þess að einhver byggi hann upp að nýju, enda í raun ófúinn, nema hvað stýrishúsið varðar. Svo skemmtilega vill til að eigandi hans Þorgrímur Ómar Tavsen, tók einnig þessa símamynd, en bátinn smíðaðir afi hans Þorgrímur Hermannsson á Hofsósi 1974 og þar stendur báturinn nú.


     5276. Jóhanna EA 31, á Hofsósi © símamynd Þorgrímur Ómar Tavsen, 29. apríl 2011

Smíðaður af Þorgrími Hermannssyni, á Hofsósi 1974. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 12. desember 1994.

Til stóð að höggva hann í spað á Akureyri er Þorgrímur Ómar Tavsen, afabarn Þorgríms Hermannssonar rakst á hann og þar sem hann er mjög heillegur, aðeins fúi í húsinu, ákvað hann að eignast hann og gekk það eftir. Var báturinn dreginn sjóleiðina til Hofsós fyrir um 5 árum. Var hann dreginn af Skvettu SK 7, sem einnig er í eigu Þorgríms Ómars.  Þar sem frekar fáir bátar eru enn til, af bátum sem gamli maðurinn smíðaði, hyggst Þorgrímur Ómar koma þessum í lag, annað hvort sjálfur eða selja hann til einhvers sem vill bjarga bátnum.

Nöfn: Auðbjörg SI 5, Björg II SI 8, Þórir Dan NS 16, Jóhanna EA 31 og Jóhanna EA 931.