13.04.2011 09:16

Hollvinasamtök stofnuð vegna endurbyggingar Maríu Júlíu

bb.is

María Júlía.
María Júlía.

Í bígerð er stofnun hollvinasamtaka um endurbyggingu björgunarskipsins Maríu Júlíu. Þá er í undirbúningi að hrinda úr vör fjáröflun til að halda áfram uppbyggingu skipsins. Fram kemur í fundargerð stjórnar Minjasafns Egils Ólafssonar að Þorgeir Pálsson, fyrrum framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, hafi tekið að sér að halda utan um fjáröflunina sem og stofnun samtakanna, safninu að kostnaðarlausu. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við eigendur skipsins sem eru Byggðasafn Vestfjarða og Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti. Í fyrstu verður leitað til sjávarútvegsráðuneytisins eftir fjárstuðningi. Í framhaldi af stofnun hollvinasamtakanna, verður málið kynnt í fjölmiðlum og leitað til Vestfirðinga allra, sem og annarra landsmanna.

"Það er von þeirra sem að þessu standa að erindinu verði vel tekið og að með þessu átaki verði hægt að halda áfram uppbyggingu þessa sögufræga skips. Framtíðarsýn aðstandenda er að María Júlía sigli í framtíðinni aftur um Vestfirði með þeim virðuleik og sóma sem skipið á skilið," segir í bókun fundarins.

María Júlía á sér glæsta sögu sem björgunarskip Vestfirðinga, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. Skipið var síðan notað sem hafrannsóknarskip á milli stríða og björgunaraðgerða. Skipið er nátengt sögu Vestfirðinga. Það er 137 brúttósmálestir að stærð og 27,5 m að lengd, smíðað í Danmörku og kom hingað til lands snemma vors 1950. Auk þess að vera útbúið til björgunarstarfa var það hannað til að gegna fjölþættu hlutverki á sviði hafrannsókna og strandgæslu.