30.12.2010 20:42

Uppgangur hjá Veiðafæraþjónustunni í Grindavík

Af grindavik.is:

Uppgangur hjá Veiðafæraþjónustunni 
 Uppgangur er hjá Veiðafæraþjónustunni hf. í Grindavík þessa dagana en fyrirtækið hefur þróað og framleitt veiðarfæri sem eru orðin eftirsótt. Fyrirtækið er í eigu Harðar Jónssonar, Sverris Þorgeirssonar og Þorbjarnar hf. og starfa þar átta manns, flestir með áratuga reynslu í netagerð. Undanfarin misseri hefur fyrirtækið fært út kvíarnar og er um helmingur af viðskiptavinum þess utan Grindavíkur.

Að sögn þeirra Harðar og Sverris er Veiðarfæraþjónustan búin að landa samningum við Brim hf. en verið er að framleiða troll fyrir Brimnes RE 27. Þá hefur fyrirtækið þjónustað Guðmund í Nesi RE 13 frá upphafi og afhenti m.a. troll í sumar sem var sérstaklega hannað til þess að losna við ánetjun á grálúðuveiðum. Trollin hafa reynst mjög vel og að sögn skipstjórnarmanna er ánetjun nánast úr sögunni. Þá hefur Veiðarfæraþjónustan hannað og framleitt humartroll sem einnig hafa vakið athygli. Meðal annars fóru tveggja belgja humartroll í Reginn HF 228 og tvö troll í Þóri SF 77 og reyndust þau það vel að bátarnir voru með þeim aflahæstu. Þá hefur fyrirtækið framleitt veiðarfæri fyrir snurvoð, grásleppu og reyndar alla flóruna ef út í það er farið.

En hver er galdurinn við uppgang fyrirtækisins í atvinnugrein sem í raun hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár?

,,Við seljum fyrst og fremst út á orðsporið. Við höfum þróað sjálfir veiðarfærin og viðskiptavinir okkar eru einfaldlega mjög ánægðir með vöruna. Þetta spyrst út og er okkar besta auglýsing," segir Hörður.

Þá hefur Veiðarfæraþjónustan verið í samstarfi með Fisktækniskólanum en verklegur hluti kennslunnar í veiðarfæragerð fer fram í Veiðarfæraþjónustunni. Að sögn Harðar hefur það gengið vel.

Veiðarfæraþjónustan var stofnuð 1. jan 2002, við sameiningu Netagerðar Þorbjarnar-Fiskanes h.f. og SH Veiðarfæra í Grindavík.