17.12.2010 13:09

Opin sandströnd við Skarfaklett

Af vef Faxaflóahafna:

Líitið leyndarmál við Sundahöfn er orðið aðgengilegt almenningi, en það er sandströndin við Skarfaklett.  Sjósundfólk þekkir staðinn, en hingað til hefur hann verið varinn af öflugum grjótgarði og ekki aðgengilegur.  skarfaklettur_2010

Nú er búið að rjúfa grjótvörnina og opna gönguleið með tröppum niður á sandinn sem liggur að Skarfakletti.  Með því opnast fallegur staður á Sundahafnarsvæðinu og upplagt fyrir mömmur og pabba og afa og ömmur að fara með börnin og barnabörnin á sandinn og komast í snertingu við sjóinn.  Nokkrar umhverfisbætur verða á næstunni gerðar í grennd við svæðið því lagt verður slitlag á svonefndan Skarfagarð og á enda hans verður komið fyrir innsiglingarvita, sem verður eins og vitarnir sem varða innsiglinguna í Gömlu höfnina í Reykjavík.  Þeir innsiglingavitar hafa verið eins allt frá árinu 1917 og því fer vel á því að sams konar viti komi á Skarfagarðinn.

Það var fyrirtækið SS Hellulagnir sem vann verkið við Skarfklett fyrir Faxaflóahafnir sf.  Um leið og allir eru boðnir velkomnir á sandinn við Skarfklett er minnt á að alltaf skal hafa aðgát í samskiptum við Ægi og góð umgengni á svæðinu er sjálfsögð.