15.11.2010 14:02

Strandaði á Hellumiðum - Sólplast gerir hugsanlega við

Samkvæmt samtali mínu rétt fyrir hádegi við skipstjórann á Víkingi KE 10, sigldi hann ekki upp í fjöru eins og fram hafði komið áður, heldur sigldi hann í strand á svonefndum Hellumiðum sem er norðan við Brenninýpu á Hólmsbergi og stóð þar fastur. En Hellumið er steinhella sem flúttar fram á svæðinu. Eftir mikil átök tókst loksins að bakka út og sigla til hafnar í Grófinni. Þá kom í ljós að töluverður leki var á bátnum enda illa brotinn, en um borð voru 800 kg. af skötusel sem þeir fengu úr 100 netum. Þá bendir margt til að hinn skipverjinn hafi slasast töluvert er hann kastaðist til við strandið og lenti illa með höfuðið í.

Á sama tíma og ég ræddi við skipstjórann kom Kristján Níelsen hjá Sólplasti og skoðaði skemmdirnar og að auki skemmdir aftan á bátnum sem komu eftir að hann var kominn í Grófina, en þá bakkaði báturinn á. Að sögn Kristjáns kemur í ljós í dag eða á morgun hvort Sólplast gerir við bátinn og ef svo fer að tryggingarfélagið samþykkir það er búist við að báturinn verði fluttur út í Sandgerði, jafnvel strax á morgun.


          

     Kristján Nielsen við tjónið á 2426. Víkingi KE 10 © myndir Emil Páll, 15. nóv. 2010