11.11.2010 07:30

Nótaveiðar á Silfra

Þessi skemmtilega mynd sem var á forsíðu Ægis í júní 1984, rifjar hjá mér upp minningar um það þegar Auðunn Karlsson notaði þennan bát, bæði sem lóðsbát í Keflavík í fjölda ára og eins til veiða s.s. nótaveiða í Keflavíkurhöfn, þar sem kastað var bæði á loðnu,- síldar- og ufsatorfur og sjálfsagt eitthvað meira sem ég man ekki. Með gamla manninum voru oftast eins og á þessari mynd starfsmenn hafnarinnar.

Þennan merka bát átti að varðveita, þegar notkun hans lauk og nýr lóðsbátur kom sem var látin heita í höfuðið á gamla manninum. Byggðasafn Keflavíkur og síðar Reykjanesbæjar lenti hinsvegar á hrakhólum með bátinn, því í bæjarfélaginu var svo mikið af snobbliði sem þoldi ekki að sjá bátinn varðveittann, eða neitt er tengdist sjó. Í fyrstu stóð til að staðsetja hann við hlið Baldurs við Grófina en þá komu fjölmenn mótmæli frá snobbliðinu og þá var hann færður inn að Stekkjarkoti, sem er gamall bær í nágrenni við núverandi Víkingaheima, á Fitjum, en ekki tók betra við. Snobbliðið í Innri-Njarðvík kvartaði yfir sjónmengun og úr varð að hann var fluttur á stað þar sem fáir sáu hann í Njarðvik og látin grotna þar í friði. Í sumar báru síðan einhverjir skemmdarvargar eld að honum og brann hann þá að mestu leiti en þó ekki öllu leiti.

Skömm bæjarfélagsins og byggðarsafnsins er mikil í þessu máli og ekki virðast þeir hafa manndóm í að hirða þó það sem er óbrunnið og segir mikla sögu, því það er skýli sem var fremst í bátnum og fólk beið oft í þegar verið var að fara út í skip.  En hvað um það hér er myndin og fyrir neðan hana kemur fram hverjir á henni eru.


   Nótaveiði á 5690. Silfra KE 24. Sá aftasti, sem stendur á peysunni er Auðunn Karlsson, framan við hann er Karl Sigurbergsson, við hlið hans er Hafsteinn Guðnason og næstur ljósmyndaranum er Ibsen Angatýrsson. Allt eru þetta gamlir sjósóknarar og þeir þrír fyrir utan Auðunn voru lengi vel skipstjórar m.a. á nótabátum © mynd úr Ægi, í júní 1984, Rafn Hafnfjörð.

Báturinn var smíðaður á Akranesi 1959 og átti Auðunn bátinn nánast alveg til 21. nóv. 1989 að hann var tekinn af skrá og talinn ónýtur ef frá er talinn síðustu mánuðirnir er hann var skráður í eigu tengdasonar hans.