05.11.2010 18:51

Aukinn afli fyrir minni byggðir

Af visi.is

Smærri byggðir landsins fá aukinn afla á næsta ári.
Smærri byggðir landsins fá aukinn afla á næsta ári.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði í dag tvær reglugerðir sem fela í sér aukningu aflamarks til stuðnings minni byggðarlögum á fiskveiðiárinu 2010/2011. Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að aukningin sé innan heimildar 10. grein laga um stjórn fiskveiða en þar er tiltekið að ráðherra geti úthlutað allt að 12 þúsund tonnum af óslægðum botnfisk vegna stuðnings við byggðarlög.

Hámark úthlutunar til minni byggðarlaga er hækkuð úr 150 tonnum í 300 tonn. Tiltekið er að þessi breyting er almenn og kemur öllum þeim minni byggðarlögum til góða er falla undir hin almennu skilyrði.

Í samræmi við þetta hefur verið ákveðið að auka heildaraflamark fiskveiðiársins um 460 þorskígildistonn og rennur sú aukning alfarið til aðgerðarinnar. Ráðuneytið segir að það aflamark sem úthlutað verði sérstaklega til stuðnings byggðarlögum sé samtals 4.345 tonn á fiskveiðiárinu sem sé lítið eitt lægra en það var á árabilinu frá 2005 til 2008.