03.11.2010 23:03

,,Duttum í lukkupottinn"

Af bb.is

Stangveiðimenn á vegum Víkurbáta slógu heimsmetið þegar þeir veiddu 220 kg. stórlúðu.
Stangveiðimenn á vegum Víkurbáta slógu heimsmetið þegar þeir veiddu 220 kg. stórlúðu.
"Sumarið gekk mjög vel, fjöldi ferðamanna var samkvæmt áætlun og allir fóru þeir ánægðir heim," segir Haukur Vagnsson, framkvæmdastjóri Víkurbáta, en fyrirtækið tók á móti sjóstangveiðimönnum í sumar og gerði til þess út þrjá sérhannaða sjóstangveiðibáta. "Hápunktur sumarsins var hins vegar þegar við duttum í lukkupottinn og slógum heimsmetið í risalúðu á stöng, en í byrjun ágúst veiddu veiðimenn á okkar vegum 220 kílóa lúðu. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur því það er mikið kappsmál meðal stangveiðimanna að fá stærstu lúðuna og nú erum við búnir að taka metið af Norðmönnunum. Og þótt sjóstangveiðin sé ung grein hér á Vestfjörðum, eigum við nú fyrsta og fjórða sætið í veiddum stórlúðum á stöng, sem frábær árangur," segir Haukur sem gerir ráð fyrir að umsvif Víkurbáta aukist næsta sumar.

"Við stefnum að því að fjölga bátum næsta sumar og ef allt gengur eftir verða þeir sex talsins. Planið er síðan að byggja sumarhús undir ferðamennina en vegna ástandsins í þjóðfélaginu verður það að bíða um sinn. Við byggðum hins vegar upp átta stúdíóíbúðir á gistiheimilinu Vaxon fyrir síðasta sumar og þurfum væntanlega að bæta öðrum eins fjölda við fyrir næsta sumar," segir Haukur og bætir við að ef greinin eigi að vaxa til framtíðar, sé nauðsynlegt að hið opinbera að standi henni að baki. "Fyrst og fremst verður ríkið að tryggja að greinin hafi öruggan aðgang að kvóta," segir Haukur.