02.11.2010 23:01

Hættuástand á fiskimiðunum

Af bb.is

Krafan um að veiða meiri fisk verður sífellt háværari. En Hafró heldur fram að ofveiði ógni þorskstofninum og því verði að halda sig við það að veiða lítið, - til að geta veitt meira seinna. Þeir beita því fyrir sig að ekki megi hvika frá "langtíma markmiðum" um uppbyggingu þorskstofnsins. Þjóðin er nú í sporum bóndans sem spyr sig hvort eigi að slátra kálfinum strax, eða vona að fólkið hans lifi til vorsins.

Ég er þeirrar skoðunar að við veiðum allt of lítið af fiski og það sé beinlínis hættulegt að auka ekki veiðarnar verulega. Þá er ég að tala um að bæta strax við 150 þús. tonnum af þorski og gefa veiðar frjálsar á ýsu og ufsa, auk fleiri tegunda. Rök mín eru þessi: Það er ekki hægt að geyma fisk í sjó og ætlast til þess að stofninn vaxi, nema fæða sé fyrir hendi, sem leyfir stækkun stofnsins.

Hvernig er svo háttað framboði fæðu? Eina aðferðin til að fá upplýsingar um það er að rannsaka v! öxt fiskanna. Sé næg fæða fyrir hendi vaxa þeir vel, annars ekki. Vöxtur fiskanna er mælikvarði á fæðuskilyrðin. Ekki er hægt að mæla stærð fiskstofna, þó menn haldi það, auk þess er stofnstærð alltaf afstæð. Þúsund tonn getur verið lítill stofn í góðu árferði en 100 tonna stofn getur verið stór í lélegu árferði. Þess vegna eru upplýsingar um vöxt svona mikilvægar. Vöxturinn mikilvægasti þátturinn í fiskveiðistjórnuninni. Að ætla sér að trúa því að hægt sé að mæla stofnstærð eins og Hafró gerir er í raun fásinna. Auk þess er til lítils að vita hve stofninn er stór ef menn kunna ekki að nýta hann.

Nú gildir hin einfalda formúla að veiða beri 20% af (vitlaust) mældum stofni. Það er út í hött að vera með fastan nýtingarstuðul á fiskstofni sem lifir í síhviku umhverfi og stöðugri samkeppni. Þetta eina atriði sýnir að fiskveiðiráðgjafarnir hjá Hafró vita ekkert hvað þeir eru að gera.

Hvernig er ástandið núna? Er offramboð af fæðu sem leyfir stækkun fiskis! tofna. Ekkert bendir til þess, þvert á móti ríkir fæðuskortur. Lítum á örfá atriði úr síðustu ástandsskýrslu:

Þorskur: "Meðalþyngd tveggja og þriggja ára þorsks mældist hins vegar í sögulegu lágmarki".

Ýsa: "Meðalþyngdin hefur verið mjög lág á undanförnum árum og í mars 2010 var meðalþyngd svipuð og er meðalþyngd yngstu aldursflokkana hærri en undanfarin ár. Lág meðalþyngd stórra árganga sést strax við eins til tveggja ára aldur en eftir það hefur vöxtur oft verið svipaður og hjá minni árgöngum. Undanfarin ár hefur vöxtur allra árganga í stofninum verið hægur, en ýsustofninn hefur verið mjög stór. Stofninn minnkaði úr 300 þús 2007 í 170 þús 2010, á 3 árum".

Ufsi: "Meðalþyngd ufsa eftir aldri var mjög lág árin 2005-2008 en fór vaxandi á árinu 2009. Engu að síður var meðalþyngd 4-10 ára ufsa í afla árið 2009 5-23% lægri en meðalþyngd sömu aldurshópa árin 1980-2004. Hjá ufsa er marktækt neikvætt samband milli árgangastærðar og meðalþyngdar". !

Þar höfum við það, lélegur vöxtur í öllum stofnum, og nú segja þeir að vöxtur standi í sambandi við stofnstærð! Þeir hafa löngum ekki viljað viðurkenna þetta, en það þýðir að veiða verður meira þegar vöxtur er hægur.

Ekki nóg með það, sjófuglar svelta, viðkomubrestur í flestum stofnum vegna fæðuskorts, sandsílið upp étið, lítið sem ekkert finnst af ungloðnu, sennilega upp étin líka og síldarstofninn að tærast upp úr pest. Við þessar aðstæður er stór hættulegt að veiða lítið, það getur endað með skelfingu - horfelli.Myndin hér sýnir hve hátt hlutfall hefur verið veitt úr þorskstofninum, skv. reiknimeisturum Hafró, frá 1955. Sjá má að veiðihlutfallið hefur löngum verið 35-45%, úr stofni, sem var í kring um 1 milljón tonn, svipað og hann er áætlaður nú. Það virðist hafa verið í ljúfasta lagi að taka 3-400 þús tonn langtímum saman. 24% aflaregla var sett 1994, græna strikið. Guli hringurinn sýnir hækkað veiðiálag, sem kom til vegna hins fræga vanmat! s. Þá féll fiskur reyndar úr hungri, sennileg vegna minnkaðs veiðiálag s. Þetta gæti gerst aftur því núna vilja snillingarnir aðeins taka 20%! Fiskurinn er á hungurmörkum og þjóðin í kreppu.

Mér koma í hug orða Bjarna heitins Benediktssonar forsætisráðherra þegar honum var ráðlagt að skera niður veiðarnar: "Það gagnar lítið að friða fiskinn en drepa fólkið."

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur.