27.06.2010 17:08

Gamlir fá nýtt líf

Það er gaman að fylgjast með því þegar gamlir bátar, sem flestir voru búnir að dæma ónýta, hafa öðlast nýtt líf og eru sumir hverjir að hefja veiðar að nýju. Nefni ég hér t.d. þrjá sem verið hafa í Njarðvíkurhöfn að undanförnu og er lokahnikkurinn á tveimur þeirra í framkvæmd, einn hefur verið settur á söluskrá, allt eru þetta eikarbátar og síðan má bæta við einum stálbáti sem verið er að gera sjóhæfan að nýju í Hafnarfirði. Þessum til viðbótar veit ég um nokkra, sem ýmist hefur verið fjallað um eða verður gert á næstunni.
Þetta er aðeins lítið dæmi um báta sem flestir höfðu afskrifað, en eru nú senn að fara í gang aftur, þessir fjórir eru 399. Aníta KE 399, 1115. Geir Goði RE 245, 619, Lára Magg ÍS 86 og 923. Röstin GK 120.
Aníta mun hefja veiðar að öllu óbreyttu í næstu viku, en þá er áætlað að báturinn fari á ufsaveiðar undir stjórn Gísla Guðmundssonar, sem jafnframt er annar eiganda bátsins. Röstin fer senn á veiðar, undir stjórn Þorgils Þorgilssonar sem einnig er einn af eigendum hans. Lára Magg hefur verið sett á söluskrá, en endurbygging hans er nánast lokið og í Hafnarfirði er verið að bæta stýrishúsið o.fl. á Geir Goða, en tæring fannst í húsinu er báturinn var þykktarmældur í vetur.
Þar sem ég hef birt margar myndir af þeim öllum, birti ég núna aðeins mynd af Anítu, svo og Gísla skipstjóra hans, þar sem sá bátur fær trúlega haffærisskírteinið nú eftir helgina.


                          Gísli Guðmundsson um borð í Anítu í Njarðvikurhöfn í dag

                399. Aníta KE 399, í Njarðvíkurhöfn í dag, til hliðar við hann sést í 619. Láru Magg ÍS 86  © myndir Emil Páll, 27. júní 2010