18.05.2010 21:06

Njarðvíkurslippur: Tveir kurlaðir niður og einn gerður að sjóræningjaskipi

Ljóst er að þrír af þeim bátum sem standa uppi í Njarðvíkurslipp, munu ekki fara aftur á sjó. Tveir þeirra verða kurlaðir niður í slippnum og sá þriðji verður fluttur til Reykjavíkur og gerður að sjóræningjaskipi.


   1249. Sigurvin GK 51, var í kvöld hífður af görðunum og niður á jafnsléttur, þar sem til stendur að rífa hann. Að vísu munaði litlu að stórslys yrði þar sem jarðvegur gaf sig og kraninn lyftist um eina 2 metra með bátinn á lofti og greip kranastjórinn þá til þess ráðs að slaka bátnum niður. Ekki var hægt að gera meira þar sem kraninn skemmdist við þetta og því ekki hægt að hreifa hann.


 1249. Sigurvin GK 51 var seldur til Noregs í nóvember 1995, en fór aldrei og hefur síðan staðið uppi í slippnum og samkvæmt upplýsingum í kvöld verður hann trúlega kurlaður niður þar sem hann er nú staðsettur.


   127. Valberg II VE 105, verður trúlega settur á hliðina öðru hvoru megin við helgi og síðan mun Hringrás kurla hann niður með stórvirkum járntætara. En undanfarna daga hefur allt spilliefni verið fjarlægt úr bátnum.


                Báturinn var loksins rétt merktur, nú þegar kurla átti hann niður. En hann hefur legið í Njarðvikurhöfn síðan í október 2008


  284. Sólborg RE 22, fær nú nýtt hlutverk, en hann hefur staðið uppi í slipp síðan árið 2000 að hann varð fyrir sjótjóni og var dreginn til hafnar. Búið er að selja úr honum ýmsilegt s.s. stýrishúsið sem komið er á annan bát, lúkarskappann o.fl. Það hlutverk sem þessi skipsskrokkur fær nú er að breyta á honum í sjóræningjaskip og staðsetja í Skemmtigarðinum í Grafarvogi í Reykjavík  © myndi Emil Páll, í kvöld 18. maí 2010