30.12.2009 13:59

Völusteinn kaupir þrotabú FESTI

 
Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi  og visir.is í morgun hefur útgerðarfélagið Völusteinn í Bolungarvík hefur keypt þrotabú útgerðarfyrirtækisins Festar ehf. í Hafnarfirði. Í því felst að Völusteinn kaupir allan rekstur og eignir þrotabúsins, sex báta, fiskvinnslu og aflaheimildir. Kaupverðið er 3,2 milljarðar króna að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum. Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. er í eigu Ólafs Jens Daðasonar skipstjóra í Bolungarvík og Gunnars Torfasonar sjávarútvegsfræðings á Ísafirði. "Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist sölu þrotabúsins í umboði skiptastjóra. Tilhögun sölunnar var kynnt með auglýsingu 4. desember. Mikill áhugi var á eignunum og óskuðu 104 aðilar eftir gögnum um þær og bárust skiptastjóra 36 óskuldbindandi tilboð. Hæstbjóðendum var boðið að leggja fram bindandi kauptilboð, og bárust 5 tilboð þann 23. desember. Að undangengnu mati skiptastjóra á þeim tilboðum og áreiðanleika fjármögnunar tilboðsgjafa, var gengið til samningaviðræðna við Útgerðarfélagið Völustein ehf. og skrifað undir kaupsamning 29. desember," segir í tilkynningunni.

Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. tekur við rekstri þrotabúsins frá og með áramótum. Eigendur hafa lýst því að reksturinn verði endurskipulagður strax í janúar, að fiskvinnslan verði áfram starfrækt í Hafnarfirði og að kappkostað verði að verja þau störf sem fyrir eru.

Útgerðarfélagið Völusteinn gerir út línubátinn Hrólf Einarsson ÍS 255 frá Bolungarvík. Með kaupum Útgerðarfélagsins Völusteins ehf. á rekstri og eignum þrotabús Festar verða aflaheimildir fyrirtækisins 1.988 þorskígildi.