30.11.2009 21:55

Humarmet slegið                                        2773. Fróði II ÁR 38 © mynd Marine Traffic

Skipverjarnir á Fróða öðrum í Þorlákshöfn settu í dag Íslandsmet í humarveiðum þegar afli skipsins á árinu fór yfir hundrað tonn. Skipsstjórinn segir koma á óvart hversu mikið veiðist nú af humri við landið.

Skipverjarnir níu komu að landi í Þorlákshöfn laust fyrir hádegi með yfir tvö tonn af humri sem þeir fengu á skömmum tíma á Breiðamerkurdýpi. Fullyrt er að með þessum afla í dag sé Fróði annar búinn að veiða meira af humri en dæmi eru um hjá einu skipi á Íslandsmiðum.

Alexander Hallgrímsson skipstjóri segir metið felast í því að hafa veitt 103,5 tonn af humarhölum frá því í byrjun apríl, - á átta mánuðum. Vel hafi veiðst alla vertíðina frá því í vor og búinn að vera mikill humar á miðunum, allt frá Hornafirði og vestur fyrir Snæfellsjökul.

Spurður hvort þetta sé góðæri í lífríkinu að þakka eða því að þeir séu svo duglegir veiðimenn segist Alexander vera á mjög öflugum bát með tveimur trollum. Sennilega hafi þó humarstofninn stækkað og það hafi komið sérstaklega á óvart hversu vel veiddist nú á haustmánuðum.

Humarinn fór beina leið í vinnsluna hjá Ramma í Þorlákshöfn þar sem 36 starfsmenn sjá um að gera hann svo kræsilegan að sælkerar fá vatn í munninn, en kaupendur í þessu tilviki eru aðallega á Spáni. Öllum var boðið til pizzaveislu í hádeginu því vinnslan var líka að slá eigið met, 200 tonn af humarhölum komin í hús á árinu. Ásgeir Jónsson, verkstjóri hjá Ramma, segir þetta umtalsvert meira en nokkurntíma hafi verið unnið í húsinu áður.

Þegar reynslumesta fiskverkakonan, Ragnheiður Hallgrímsdóttir, var spurð hvort þær græddu eitthvað meira á því þegar svona mikið kæmi inn í vinnsluna kvað hún svo ekki vera. Þau væru bara á sínum verkamannalaunum.

HEIMILD: visir.is