30.11.2009 00:35

Sighvatur GK 57 fékk á sig brotsjó                                      975. Sighvatur GK 57 © mynd Þorgeir Baldursson 2006

Línubáturinn Sighvatur GK  57 var hætt kominn sl. laugardagskvöld þegar hann fékk tvisvar á sig brotsjó þar sem hann var að draga línuna norður og austur af Horni. Við fyrra brotið lagðist báturinn á hliðina og þegar skipstjóra hafði tekist að rétta hann af reið seinna brotið yfir.
Talsverður sjór flæddi inn á millidekkið og niður í vistarverur skipverja. Tveir menn, sem voru í lestinni þegar brotin riðu yfir, meiddust þegar kör hentust á þá og þeir köstuðust til. Sighvati GK var þegar siglt til Skagastrandar og kom hann þangað í gærmorgun (sunnudag). Að sögn lögreglu á Blönduósi var farið með mennina til læknis þar en þeir voru ekki alvarlega slasaðir og fóru fljótlega til skips aftur. Talsverðar skemmdir urðu á vistarverum og eigum skipverja vegna bleytu.

Heimild: Sjónvarp RÚV.